146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

272. mál
[12:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar með þessu frumvarpi til laga um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni, langar mig að taka undir og þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls í umræðunni og hafa lýst yfir mikilvægi þess að við leggjum áherslu á sjálfbæra nýtingu á þessari auðlind. Ég tel að það sé afar brýnt að við höldum því sjónarhorni til haga í umræðunni.

Ég vil samt líka taka undir með hæstv. ráðherra um að greinargerðin með frumvarpinu er afar áhugaverð aflestrar. Það gerist ekki á hverjum degi að í greinargerðum með þingmálum séu lög eða meðferð á hlutum rakin allt aftur til Jónsbókar og Jónsbók notuð í rökstuðningi í málum, svo er mótraka aftur leitað þar. Það fannst mér gera málið svolítið öðruvísi. Það er vissulega óvenjuleg nálgun, sem er hressandi þegar maður les svona texta sem getur verið þurr á köflum og ansi einsleitur. Ég verð nú að segja að mér fannst þetta skemmtilegt. Af því að hæstv. ráðherra sagði þegar hún fór með latneska heitið á klóþangi að það minnti hana helst á Harry Potter, þá verð ég að viðurkenna að ég tengdi frekar við Mary Poppins og átti allt eins von á því að hæstv. ráðherra mundi bresta í söng í þeim stíl. Það er búið að vera skemmtilegt að fylgjast með umræðunni því að hún leiðir til vangaveltna um ýmsa staði. Þetta var útúrdúr. Nú ætla ég að snúa mér að efnislegu inntaki málsins og hætta allri léttúð.

Ég tek undir það sem sagt er í greinargerðinni að með þessu frumvarpi felist allumfangsmikil heimild til stjórnunar við öflun sjávargróðurs. Ég tel það mikilvægt sér í lagi í ljósi þess að líkt og fram kom í máli hæstv. ráðherra eru líkur á því að þörungavinnsla verði meiri á komandi árum. Þá þurfum við auðvitað að hafa búið vel um hnútana. Ég vil vera varkár og gæta ýtrustu umhverfissjónarmiða, en um leið vil ég að við getum nýtt auðlindina. Ég tel að þetta tvennt þurfi að geta farið saman. Ég hef þó áhyggjur af því að ekki sé gengið nógu langt í frumvarpinu í því efni.

Það vildi þannig til að þegar málið var lagt fram á síðasta þingi datt ég inn á fund sem íhlaupamaður í forföllum aðalmanns í hv. atvinnuveganefnd og fékk þá mikinn áhuga á þessu máli og hef fylgst með því síðan. Þá fannst mér það vera verulegur galli á málinu að verið væri að gera rannsóknir á áhrifum á þaratekju og frumvarpið lagt fram án þess að niðurstöðurnar væru komnar. Ég sagði það þá að ég hefði viljað bíða eftir niðurstöðunum.

Fram kom í máli hæstv. ráðherra að niðurstaðna sé að vænta í mars og apríl. Þó svo að ég sé enn þá þeirrar skoðunar að ég hefði talið best að niðurstöðurnar væru komnar og málið hefði þar með verið skoðað í heild sinni með tilliti til þess sem þarna mun verða rakið, er það þó auðvitað skömminni skárra ef niðurstöðurnar koma á meðan málið er enn þá til umfjöllunar á vettvangi þingsins. Mér finnst því gríðarlega mikilvægt að hv. atvinnuveganefnd fari vel yfir niðurstöðurnar og noti þær við vinnu sína og meðferð á málinu. Það er alla vega næstbesti kosturinn að gera það þannig.

Ég hef aðallega áhyggjur vegna þessa frumvarps af atriðum sem lúta að umhverfisverndarsjónarmiðum og þess hvernig náttúruauðlindin er nýtt og hefði gjarnan viljað að betur væri um þau búið.

Í greinargerðinni er það reyndar reifað að komið hafi umsögn frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi með málinu, en í rauninni hafi ekki verið brugðist við henni að ráði eða hún fléttuð inn í frumvarpið. Það finnst mér miður. Það er einkum tvennt sem ég vil nefna: Þetta efni er ekki mjög mikið rannsakað. Líkt og hv. þm. Bjarni Jónsson sagði í andsvari áðan eru þörungarnir neðstir í keðjunni í lífríkinu. Þess vegna skipta þeir svo miklu máli fyrir allt sem þar er fyrir ofan. Og þess vegna finnst mér bagalegt að eins og frumvarpið stendur nú verði ekki skylt við öflun sjávargróðurs að skilja meðafla frá, en sagt að ráðherra sé heimilt að setja fyrirmæli í reglugerð um hvernig staðið skuli að eftirliti með skráningu hans og skoðun afla.

Í umsögn frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi er eindregið hvatt til þess að lögin kveði á um að meðafli verði skráður til þess að meta megi áhrifin af þaratöku á lífríkið og bent á að það sé í raun forsenda þess að það sé vaktað til þess að hægt sé að tryggja sjálfbæra nýtingu. Í umsögninni er svo bent á að ekki þyrfti endilega að hirða allan meðafla en það væri mjög æskilegt að taka hlutasýni úr meðafla og nota þau til að skrá meðafla, t.d. til að meta algengi tegunda sjávardýra og plantna.

Ég hefði því viljað að gengið hefði verið lengra hér og kveðið fastar að orði. Ég vil beina því til hv. þingnefndar að skoða það alveg sérstaklega hvort ekki sé rétt að búa hér enn betur um hnútana.

Þá er einnig bent á í umsögn að í frumvarpinu séu tilgreind hlutverk Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar. Ég ætla alls ekki að fara að mæla gegn því, það er auðvitað mjög gott, enda mikilvægar rannsóknarstofnanir þar á ferð.

Hér er hins vegar bent á að Hafrannsóknastofnun hafi of þröngt hlutverk til þess að geta verið eina rannsóknarstofnunin til að meta áhrif þangtöku á lífríki Breiðafjarðar og er bent á að hlutverk hennar sé ekki að rannsaka lífríkið sem heild heldur eingöngu afdrif nytjategunda, sem í þessu tilfelli eru þang og þari. Þess vegna sé engin heildstæð vistkerfisnálgun í boði þaðan og því þurfi fleiri stofnanir að koma að því að meta áhrifin af þangtökunni á lífríki Breiðafjarðar. Mér finnst að hv. atvinnuveganefnd eigi að skoða þetta mjög vel og fara vel yfir það, því að líkt og ég sagði áðan er ég hlynnt því að við nytjum þá auðlind sem þangið og þarinn eru, en ég vil að við getum nytjað hana með sjálfbærum hætti til langrar framtíðar. Þess vegna finnst mér mikilvægt, nú þegar verið er að setja lög um þetta efni, að búið sé vel um hnútana og að vernd sé vel sinnt.

Í greinargerð með frumvarpinu segir líka að ekki hafi þótt rétt að mæla fyrir um beina skyldu til að hvíla sláttusvæði til tiltekins tíma eftir nýtingu. Ég velti fyrir mér: Er það nógu gott?

Rökin fyrir því eru að ekki liggi fyrir rannsóknir á endurvaxtartíma þangs og að mjög góðar upplýsingar þurfi um legu og eiginleika sláttusvæða, sem ekki liggja fyrir. Í mínum huga eru það einmitt rök fyrir því að hafa uppi ríkari varúðarsjónarmið en ekki öfugt, eins og mér finnst vera gert hérna.

Efast er um það í greinargerðinni að þörf sé á reglu um hvíldartíma, a.m.k. að svo stöddu, þar sem landeigendur og nýtingaraðilar á hverjum stað eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta af því að svæði fái nægjanlega hvíld eftir slátt. Ég geri þá ráð fyrir því að verið sé að vísa til þess að nýtingaraðilar hafi hagsmuni af því að fara vel með auðlind sína.

Ég hef efasemdir um þetta, því að landeigendur og nýtingaraðilar hafa auðvitað líka þörf fyrir að fá inn tekjur og halda rekstrinum gangandi. Þar er hættan að — ég veit ekki hvort rétt er að segja gróðasjónarmið, en alla vega þótt ekki sé annað en bara það að halda atvinnurekstrinum gangandi getur stangast á við það sem betra er í umhverfislegu tilliti til lengri tíma. Ég tel það aftur vera rök til þess að hér verði kveðið fastar að orði.

Um leið og ég fagna því að við ætlum okkur til framtíðar að nýta þá auðlind sem þang og þari eru, tel ég ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegt að búið sé virkilega vel um hnútana hvað varðar sjálfbærni á auðlindinni. Ég tel að svo sé ekki í þessu frumvarpi og að hv. atvinnuveganefnd hafi því verk að vinna við að bæta þar úr.