146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[16:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja og kalla eftir umræðu um þetta mikilvæga málefni sem mér er mjög hugleikið. Ég vil þakka honum sömuleiðis fyrir kjarnmikla og frábæra ræðu sem ég held að ég geti heils hugar tekið undir orð fyrir orð. Ég vildi gjarnan fá að gera mjög margt að mínum orðum af því sem hv. þingmaður bendir á og leggur áherslu á.

Það velkist enginn um í vafa að sýn og viðhorf til efri ára hefur breyst mjög mikið undanfarin ár og mun halda áfram að breytast á næstu árum. Kröfur og væntingar breytast sem endurspeglast m.a. í mikilvægi þess að hverjum og einum sé gert kleift að taka virkan þátt í samfélaginu eins lengi og kostur er. Eldri borgari í dag er ekki það sama og eldri borgari fyrir tíu árum, hvað þá eldri borgari eftir fimm til tíu ár, það er mjög mikil þróun á þessu aldursskeiði, eins og hv. þingmaður benti á, á getu eldri borgara, en líka möguleika okkar til þess að þjónusta eldri borgara og til þess að kljást við sjúkdóma, en ekki síður möguleikar til þess að auka lýðheilsu og hjálpa fólki að halda heilbrigði lengur og betur.

Ég lít svo á að samstillt og heildræn aðstoð heim sé mjög mikilvæg í þessu sambandi. Við höfum verið að byggja mikið upp heimaþjónustu og sömuleiðis félagsþjónustu við eldri borgara á hinum síðari árum, en við erum engu að síður á eftir nágrannalöndum okkar í þróun á þessu og þurfum að gera betur.

Það eru ýmsir aðilar sem vinna að heilsueflingu aldraðra á Íslandi og sem koma að þjónustu við aldraða, eins og hv. þingmaður benti á. Málaflokkurinn tengist inn á fleiri ráðuneyti en mitt, það eru ekki bara heilbrigðismál heldur einnig félagsmál og stór hluti þjónustunnar er veittur af félagsþjónustu sveitarfélaganna. Ég er ekki viss um að það sé endilega nauðsynlegt að sameina það allt undir einn ríkishatt öldrunarþjónustu, en það er vissulega nauðsyn á því að samhæfa þjónustuna betur. Það getur vel gerst og er í mörgum tilfellum að gerast með betri samvinnu mismunandi stofnana, mismunandi stjórnsýslustiga o.s.frv.

Embætti landlæknis hefur undanfarin ár unnið að því að styðja samfélög í að skapa aðstæður sem stuðla að góðri heilsu, vellíðan og auknum lífsgæðum. Verkefnið er unnið undir formerkjum heilsueflandi samfélags. Tólf sveitarfélög á landinu hafa nú skrifað undir samstarfsyfirlýsingu við embætti landlæknis um að verða heilsueflandi samfélag. Í þessum sveitarfélögum búa 73% landsmanna.

Heilsueflandi heimsóknir fara fram á vegum heilsugæslustöðva víðs vegar á landinu. Markhópurinn er yfirleitt 75 ára og eldri. Tilgangur þessara heimsókna er að veita ráðleggingar um viðhald heilbrigðis, fara yfir öryggisþætti og slysavarnir og kynna þá þjónustu sem er í boði fyrir eldri íbúa.

Ég styð þá þróun heils hugar. Það er bara eitt lítið dæmi um það hvernig við getum nálgast þjónustu við þennan aldurshóp, ekki bara út frá því að taka á sjúkdómum og heilsuvandræðum, heldur einnig með því að hjálpa til við að byggja undir heilbrigði áfram.

Um leið og þjónustan heim er styrkt og forvarnir eru efldar er líka mikilvægt að tryggja aðgang að hjúkrunarrýmum og halda áfram byggingu dvalar- og hjúkrunarheimila. Við vitum að hluti af vanda Landspítalans er svokallaður fráflæðisvandi, þar sem aldraðir sem eru mikið veikir og búa við fjölsjúkdómaveikindi komast ekki heim vegna þess að það vantar þjónustu og þeir komast ekki á hjúkrunarheimili af því að það vantar rými. Við þurfum og stefnum á að slá í klárinn og flýta og auka uppbyggingu hjúkrunarheimila á sama tíma og við aukum dagdvöl og heimaþjónustu.

Mér gengur því miður ekkert að komast yfir punktana mína og sé að tíminn er að renna út. En mér tekst vonandi að bæta örlitlu við í lokaræðu minni.