146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[20:23]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að vinnulagið gekk svolítið út á fjármálaáætlunina hjá mér. En mér líður oft eins og það sé ákveðin málamyndaframkvæmd þar sem umsagnaraðilar eða mál koma fyrir nefndina og fljóta fram hjá. Það gefst lítill tími til undirbúnings og eftirvinnslu, að við lærum af því sem við vorum að fá. Það lít ég á sem ákveðna miðstýringu sem slíka. Þar vantar tvímælalaust eins og hv. þingmaður nefnir stuðning Alþingis við faglega vinnu, okkur vantar þann stuðning, ólíkt þeim sem sitja í ráðuneytinu og hafa kannski 100 manns í vinnu við að taka saman tölur og annað slíkt, en þingmenn almennt séð hafa það ekki.

Ég er ekki viss um að fólk sjái þetta almennt. (Forseti hringir.) En ég vildi reyna að koma því á framfæri að það þarf að byggja upp betra stuðningskerfi [Háreysti í þingsal.] fyrir þingið þannig að það geti betur tekið faglega á svona stórum málum eins og fjármálastefna og öll framkvæmdin um opinber fjármál er.