146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir ræðuna. Mig langar að grípa aðeins niður í álitsgerð fjármálaráðs um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu. Á bls. 10 kemur fram, með leyfi forseta:

„Það er viðbúið að ónákvæmni sé í þjóðhagsspám vegna galla í líkönum, skekkju í gögnum og vegna óvissunnar sem er til staðar. Af því leiðir að það getur skapað vanda að miða áætlanagerð og stefnu um of á grundvelli einnar spár án þess að hugað sé að möguleikum á annarri atburðarás.“

Svo er farið aðeins í hvernig fyrri þjóðhagsspár hafa ekki staðist og að skekkjan hafi verið talsvert mikil.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist það ekki orka tvímælis, sérstaklega þegar okkur hefur verið tíðrætt um að það vanti allar sviðsmyndir, að ekkert sé tekið fram um sviðsmyndir í fjármálastefnunni. Svo spyr ég vegna ummæla hv. þingmanns um (Forseti hringir.) umhverfismál: Ætti ekki að vera sviðsmynd hér um hvernig við bregðumst við út af umhverfismálum?