146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

íslenskur ríkisborgararéttur.

373. mál
[14:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að fylgja aðeins eftir spurningu frá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni um staðgöngumæðrun. Þar var sérstaklega verið að ræða það sem snýr að tæknifrjóvgun. Hins vegar má líka spyrja varðandi 4. gr. um ættleiðingar með erlendri ákvörðun sem íslensk stjórnvöld viðurkenna, hvort með sambærilegum hætti sé verið að opna fyrir það að fara fram hjá banni gegn staðgöngumæðrun sem Hæstiréttur var að staðfesta fyrir fimm dögum, þar sem kemur fram að bann útilokaði að kona sem elur barn geti afsalað sér náttúrulegri stöðu sinni sem móðir og kæmi í veg fyrir að kona væri beitt þrýstingi til að veita afnot af líkama sínum. Það er fyrsta spurningin. Ef ráðherrann gerði sér grein fyrir að þetta gæti verið að opna á það hver ástæðan er fyrir því að ekki var sérstaklega fjallað um það í framsöguræðunni og hvað það er sem nefndin ætti (Forseti hringir.) sérstaklega að huga að þegar kemur að því að fara yfir málið?

Síðan hvort ráðherra sé með upplýsingar um það (Forseti hringir.) hversu mörg tilvik það eru sem hafa komið upp sem þessi lög myndu ná yfir ef frumvarpið yrði að lögum.