146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Síðustu kosningar sýndu að það var krafa til stjórnmálanna að vinna betur saman. Það voru ekki skýrar línur sem komu út úr þeim kosningum heldur gerði almenningur þá kröfu, eftir þær kosningar, að við yrðum að reyna að vinna saman. Þessi ríkisstjórn hefur ekki sýnt að hún hafi þroska eða burði til að gera neitt í þá átt. Loforðin voru þau að það yrði samvinna og samráð, en ekkert hefur komið út úr því. Það er kannski of mikil bjartsýni, of miklar væntingar af okkur hér í minni hlutanum, að reikna með því að þessi ríkisstjórn vinni sem velferðarstjórn því að það mun hún aldrei gera, þó að Björt framtíð tali í þá átt og hafi uppi þannig orð að hún sé að vinna að aukinni velferð. Hún er í eftirdragi eftir Sjálfstæðisflokknum og hlýðir í einu og öllu því uppleggi sem hann leggur fyrir hana. Það verður ekki jöfnuður í landinu með þessa ríkisstjórn við völd. (Forseti hringir.) Þess vegna þurfum við að fella hana sem fyrst. Það er eins manns meiri hluti. Ég skora á vel meinandi þingmenn hér að hugsa (Forseti hringir.) sinn gang. Ætla menn að sitja uppi með þessa ríkisstjórn næstu fjögur árin? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)