146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherranum framsöguna. Hann sagði að 2018 yrði bætt verulega í málaflokkana sem undir ráðuneytið heyra en það er greinilega misjöfn upplifun fólks af því. Jú, vissulega eru stofnframlög sett inn núna á næstu tveimur árum í háskólastigið t.d. í formi Húss íslenskra fræða. En það þýðir að rekstrarframlög til háskólastigsins vaxa væntanlega ekki von úr viti á þeim tíma. Það þýðir í reynd að loksins þegar losnar um fjárveitingar til háskólastigsins, þegar Hús íslenskra fræða verður risið, verður komið árið 2020 og þá verður kominn nýr ráðherra í ráðuneyti menntamála. Það virðist vera stefna þessarar stjórnar að bæta ekkert í rekstur háskólanna meðan hún situr, eftirláta það þeim sem á eftir koma.

Fyrr í dag kom fram í máli ráðherrans að hann hafi í samræmi við samþykkt Alþingis lagt til að bætt yrði inn framlagi til að byggja upp náttúruminjasafn, enda er talað um í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna að bæta skuli vernd menningar og náttúruminja og aðgengi almennings að því. Þar er náttúruminjasafn eitt af lykilatriðum. Það kom fram í máli ráðherrans að ekki hafi verið orðið við þeirri ósk hans. Það þykir mér undarlegt, að fjármálaráðherra hafi það boðvald yfir menntamálaráðherra og samþykktum Alþingis að geta synjað þeim á þennan hátt. Hvaða fleiri stóru póstum náði ráðherrann ekki fram í samningaviðræðum við fjármálaráðuneytið? Væri ekki rétt til að Alþingi hefði öll gögn í höndunum að við fengjum að vita t.d. hvað ráðherrann teldi eðlilegan rekstrarkostnað til Háskóla Íslands (Forseti hringir.) borið saman við það sem hann leggur hér á borð Alþingis?