146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem ráðherrann segir, þegar ég segi að ekki sé neinu bætt við háskólastigið er það gildishlaðið. En það er líka upplifun þeirra sem starfa við háskólana, sem stafar mögulega af því að í framsetningu ríkisfjármálaáætlunar er grautað saman stofnkostnaði við löngu tímabært Hús íslenskra fræða og rekstur háskólanna. Ég spyr í nafni gagnsæis, sem er eitt af grunngildum laga um opinber fjármál: Væri ekki rétt að við hjá þinginu og almenningur fengjum þetta sundurgreint? Þannig væri hægt að taka umræðuna á því plani sem við ráðherrann erum sammála um að gera, þar sem við getum sagt hvaða krónutala er sannarlega að leggjast til til að bæta þjónustu háskólanna.

Ég held að við ráðherrann séum sammála um að öflugt þekkingarsamfélag, sem við viljum að sé hér á landi, sé drifið áfram með krafti öflugra háskóla. Þá fáum við ekki með því að ná viðmiðum OECD, eða hvað það er sem við viljum stefna að með fækkun nemenda.

Þá spyr ég mig hvort samdráttur í framlögum til háskólanna, ef upplifun rektors Háskóla Íslands er sú rétta, samræmist því t.d. að við höfum hér knýjandi þörf á að fjölga starfsmönnum í heilbrigðiskerfinu. Það stefnir í mjög mikinn kennaraskort. Þetta eru stéttir sem þarf að efla menntun hjá innan háskólanna. Við þurfum meiri háskólakennslu, ekki minni.

Rétt að lokum vil ég spyrja ráðherrann um framhaldsskólann. Hann var styttur niður í þrjú ár, þvert á það faglega frelsi sem við gerum ráð fyrir að veita honum, með þeim orðum að sá sparnaður myndi nýtast til að styrkja starfið þar innanbúðar. En það er ekki reyndin heldur er verið að klípa af þeim lið 1.700 millj. kr. á tímabilinu. Færi ekki betur á að nýta þann pening (Forseti hringir.) til að auka gæði náms, auka frelsi fólks til að velja sér námsleiðir innan framhaldsskólanna eða til að bæta sálfélagslega þjónustu sem svo bráðvantar innan framhaldsskólanna?