146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:29]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir hans svar. Ég get upplýst að ég hef talsverðan áhuga á þessum sjóðum, ekki síst vegna þess að oft virðist mér sem þar sé tækifæri til að sá ákveðnum fræjum. Fólk getur lagt af stað með ákveðna hugmynd sem það hyggst framkvæma, farið með hana alla leið; sækir um, gengur í gegnum ákveðið ferli, oft með öðru fólki, og það getur orðið eitthvað úr því jafnvel þó svo að fullur stuðningur fáist ekki. Ég hef mikla trú á þessari leið til að efla menningu og listir í landinu. Þess vegna finnst mér athyglisvert að heyra, eins og segir hér um markmiðin, að skilgreina verði viðmið hvað alla þessa þætti varðar. Við erum þá kannski á upphafsstað í þeirri vegferð. Ég hlakka til að sjá hvernig tekst til með hana.

Mig langar þessu tengt að spyrja örlítið betur um annað markmið sem sett er í þessum kafla, þ.e. að efla stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu með viðeigandi hætti. Þar hefur verið skilgreindur sá mælikvarði að fjöldi styrktra máltækniverkefna verði: fjögur 2016, átta 2018 og sextán árið 2022. Mig langar að spyrja hvort svo megi líta á að vöxtur verði í fjármunum í samræmi við þennan fjölda, hvort þetta verði verkefni sem verði jafn stór eða hugsanlega komi minni verkefni í staðinn og hvaða hugmyndir séu í ráðuneytinu um það.