146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:52]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Dómurum í Hæstarétti mun fækka um þrjá og málum í Hæstarétti mun fækka sömuleiðis en þau færast vissulega annað. Dómurum mun fjölga um 12 með þessari breytingu.

Launakostnaður sérfróðra meðdómenda er fjármagnaður. Ég vil leggja áherslu á og nefna það aftur að gert er ráð fyrir að 700 millj. kr. fari í Landsrétt. Samhliða því tekur til starfa hin nýja stjórnsýslustofnun. Fjárhagsleg áhrif nýrra dómstólaskipunar eru 35% aukning fjárframlaga til málefnasviðsins árið 2018 ef miðað er við upphæð fjárlaga og fjáraukalaga árið 2016. Aukningin á milli áranna 2017 og 2018 nemur tæplega 23%.

Svo ég komi inn á annað verkefni sem snýr að héraðsdómstólunum þá er hin nýja málaskrá sem sömuleiðis er unnið að fjármögnuð og skiptir miklu máli. Hún styður við rafræna málsmeðferð og rafræna sendingu gagna á milli dómstiga. Málaskráin hefur verið mikill veikleiki í starfsemi héraðsdómstólanna. Þess vegna er mjög brýnt fyrir dómstigin þrjú, auk ákæruvalds, lögreglu og fullnustustofnana, að koma sameiginlega á rafrænni málsmeðferð þar sem unnt er að senda skjöl og önnur gögn rafrænt. Til að mæta því þurfa héraðsdólmstólar að uppfæra málaskrána og koma upp skýrslubúnaði í hljóði og mynd til spilunar í Landsrétti og Hæstarétti.

En forgangurinn í dómstólana er alveg skýr og fara 700 millj. kr. í Landsrétt, eins og ég kom inn á. Það er fjármagnað.