146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:02]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka starfandi ráðherra svörin. Ég sýni því vissan skilning að hún hafi svörin ekki á reiðum höndum, en ég treysti því að hún komi þessum áhyggjum og skilaboðum til hæstv. dómsmálaráðherra.

Mig langar að víkja að öðrum þætti sem varðar þrjár nýjar þyrlur til Landhelgisgæslunnar. Þetta eru mjög dýr tæki og er talað um að áætlaður kostnaður sé allt að 14 milljarðar kr., það er nú býsna mikið. Þess vegna er mjög mikilvægt að þessi fjárfesting nýtist sem allra best. Aftur fer maður í fjármálaáætlunina og á bls. 181 segir, með leyfi forseta:

„Fjárhagslegt svigrúm til fjölgunar áhafna á þyrlur og varðskip er því miður lítið.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er skynsamlegt að verja svo miklum fjárhæðum í dýr tæki sem erfitt verður að manna? Mig langar að fylgja þessu aðeins eftir og segja: Hefur í þessu samhengi verið kannað hvort og hvernig hægt er að nýta þyrlur Gæslunnar til að sinna sjúkraflugi og þétta þannig það fyrirkomulag sem nú er við lýði? Almennir sjúkraflutningar eru vissulega á forræði heilbrigðisráðherra, en hefur dómsmálaráðherra í hyggju að skoða hagræði af þessu tagi til þrautar og verða þá hinar nýju þyrlur búnar með það í huga að þær geti verið nauðsynleg viðbót við öryggiskerfi landsmanna að þessu leyti?