146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:38]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, við hv. þingmaður höfum oft rætt hér saman um umhverfismál og mér finnst við vera sammála. Það er rétt mat hv. þingmanns. Við viljum veg umhverfisráðuneytisins örugglega sem mestan bæði tvö.

Hv. þingmaður kom inn á að hann teldi fjármagnið ekki vera nægilegt til næstu fimm ára til að standa straum af þeim miklu verkefnum sem við erum að fara í. En nefndi þó eins og réttilegt er að á milli ára núna erum við að bæta í um 1 milljarði. Það þýðir þá að það er raunaukning líka áfram, er það ekki? Við verðum að halda því til haga.

En á milli ára er eitthvert svolítið flökt. Ég vil stilla því upp þannig að fyrst þurfi að spyrja: Hvaða verkefni þurfum við að vinna? Svo þurfum við að spyrja: Hvaða peninga þurfum við í verkefnin? Ég held að í þessari áætlun sé nægilegur peningur í loftslagsmálin. Til dæmis þurfa aðgerðirnar þar ekki að kosta margar hverjar svo mikið. Auðvitað bindingin, landgræðslan, þar verða aukin fjárútlát. En ég sé fyrir mér og hef rætt t.d. við atvinnulífið, t.d. losar stóriðjan hér mikið, að hún komi líka til móts við Íslendinga og almenning þó svo hún borgi sína grænu skatta í ETS-kerfið. Það eru ýmsar leiðir til fjármögnunar. Við sem erum í stjórnmálunum verðum auðvitað að gera vel en líka að passa upp á að (Forseti hringir.) belgja ekki út efnahagsreikninginn of mikið. Eða að minnsta kosti hafa það þannig að það sé ekki sjálfstætt markmið í sjálfu sér að eyða alltaf meiru. (Forseti hringir.) Horfum frekar á verkefnin, hver þau eru og vinnum þau vel.