146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Við verðum þá bara að vera sammála um að vera ósammála (ATG: Já.) um að þessi áætlun geti staðið undir verkefnunum. Hins vegar er annað, og ég er alveg sammála, held ég, hv. þingmanni þar: Hér eru enn ókannaðar leiðir í t.d. auðlindanýtingu. Hvað varðar það til dæmis að ferðaþjónustan nýtir náttúruna okkar og landsins gæði í að selja ferðir sínar. Það er ekkert sjálfsagt markmið kannski en við horfum til virðisaukaskattshækkunar eða -jöfnunar á ferðaþjónustuna. Það eru svæði sem vill svo til að heyra undir mig sem þarf að gæta sérstaklega að, eru náttúruverndarsvæði og eru undir ásókn ferðamanna. Við þurfum að fara að passa upp á það hvernig við stjórnum flæðinu þangað. Það er hægt að gera með gjaldtöku að einhverju leyti. Ég held samt að fókusinn verði alltaf að vera á að við séum að vernda náttúruna en ekki að gjaldtakan sé eitthvert sérstakt markmið á þessum svæðum út af fyrir sig.

Hins vegar leggjum við upp með t.d. í stórum þjóðgörðum, Vatnajökulsþjóðgarði, að þar fari fólk að nýta meira bílastæði og bílastæðagjöld til þess að byggja upp innviði þar. Og eins á öðrum svæðum. Þá fara að skapast sértekjur sem hægt væri að nýta beint inn í þá innviðauppbyggingu. Þar mun svigrúm enn aukast til t.d. vöktunar á náttúru Íslands sem ég legg mikla áherslu á; vöktun, mengunarvarnir og hollustuhættir, að það sé vel úr garði gert.