146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

fjármálaráð og fjármálaáætlun.

[15:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Fjármálaráð kom með margar gagnlegar ábendingar í sínu áliti. Sumar þeirra komu reyndar frá fjármálaráðuneytinu, þ.e. ráðuneytið er að fullu upplýst um að enn vantar nokkuð á að það hafi öll þau tæki sem æskilegt væri að það hefði til að leggja fram fjármálaáætlun til langs tíma. Ég tel ekki rétt að tala um að fjármálaráðherra hunsi ábendingar sem hann fær eftir að hann leggur fram áætlunina. Það er mjög erfitt að fara eftir ábendingum um eitthvað sem maður gerir vegna þess að þær komu ekki fram fyrr en eftir að maður gerir það.

Við gátum að sjálfsögðu ekki tekið tillit til þessara ábendinga í þetta sinn. Ég mun hins vegar beita mér fyrir því og hef þegar hafið undirbúning að því að í næsta skipti sem fjármálaáætlun verður lögð fram, sem verður væntanlega snemma næsta árs, munum við reyna að taka tillit til þeirra ábendinga sem þarna komu fram. Eitt af þeim málefnum sem bent er á er þjóðhagslíkan sem æskilegt væri að fjármálaráðuneytið hefði aðgang að sem t.d. tæki tillit til ýmiss konar sviðsmynda. Ég er sammála fjármálaráði um að það væri mjög æskilegt að fjármálaráðuneytið hefði yfir slíku líkani að ráða. Við höfum þegar lagt drög að því að ráðuneytið fái aðgang að slíku líkani.