146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:12]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Mér er málið svolítið skylt. Ég vil taka til máls því að ég er varamaður í utanríkismálanefnd og hef haft áhuga á þessum málum og kynnt mér þau að sumu leyti. Það eru tugir ríkja í heiminum þar sem stunduð eru mannréttindabrot, misgróf. Þegar kemur að samskiptum við ríki eru þau viðkvæm eða öllu heldur flókin, það er kannski réttara orðalag. Það er einmitt þess vegna sem svona mörg orð hafa fallið í salnum í dag. Mjög óvænt. Ég er nokkuð viss um að hv. utanríkisráðherra hefur ekki endilega búist við þessu, að hér yrðu miklar umræður um fríverslunarsamning við Filippseyjar, sem er að hluta til tilkominn áður en umræddur forseti tók völd. En umræðan er klassísk. Við höfum staðið frammi fyrir þessu, að eiga í viðskiptum við ríki þar sem stjórnvöld eru ekki í lagi, og munum eiga í þeim um langa framtíð. Það er rétt að skoða ríki nú og fyrr og skoða jafnvel skrautlega sögu Íslands í þessum efnum. Það eru önnur ríki í austanverðri Asíu, tökum sem dæmi Myanmar. Hvað með viðskipti við Myanmar? Þar eru mjög harðar ofsóknir í garð minnihlutahópa. Við höfum verið í verulegum samskiptum á jarðhitasviði við Níkaragva. Þar er pottur brotinn. Hvernig skyldi nú hafa gengið með Síle Pinochets á sínum tíma? Hefði verið hægt að stytta hans veru þar ef alþjóðasamfélagið hefði brugðist öðruvísi við meðan hann sat og hét?

Ég hef sjálfur verið í vesturhluta Kína í Xinjiang og ég hef líka verið í Tíbet. Ég veit töluvert um þau mannréttindabrot sem þar fara fram. Jú, það er kominn fríverslunarsamningur, það er staðreynd. Ég hefði sennilega þurft að grafa djúpt í minn hug ef ég hefði setið á þingi á þeim tíma, hvernig ég hefði brugðist við þá. Skyldi Spánn Francos hafa lifað skemur ef hin Evrópuríkin hefðu komið öðruvísi fram við það ríki en þau gerðu? Hvað með áralanga samninga Íslands við Sovétríkin gömlu? Við vitum heilmikið um þau núna og vissum heilmikið þá, en það þótti mjög mikilvægt fyrir íslenskt efnahagslíf að hafa mjög hagstæða samninga við Sovétríkin á sínum tíma.

Ef við skoðum þetta allt í samhengi höfum við auðvitað ekki hreina áru í þessu. Nú stöndum við frammi fyrir þessum fríverslunarsamningi við Filippseyjar. Mér er alltaf spurn með þetta orð fríverslun: Hverjar eru viðskiptaleiðirnar í landi eins og Filippseyjum? Forseti Filippseyja er ekki einn. Í kringum hann er stærðarhópur, við getum kallað það valdastétt eða viðskiptatengsl eða hvaðeina. Við höfum enga tryggingu fyrir því að viðskipti, hversu mörg hundruð milljónir sem þau kunna að hljóða upp á, hafi í raun þau áhrif önnur en einfaldlega að efla þá stjórn sem þarna er og styrkja hana og styrkja þann hóp sem er í kringum hana. Einhverjar fullyrðingar um að þær 100 milljónir Filippseyinga sem þar búa, sem er að miklum meiri hluta sárafátækur, hagnist á einhvern máta eða að honum gagnist íslensk viðskipti eru bara orð. Það er mjög erfitt að sjá í gegnum þokuna og fullyrða að svo sé. Þess vegna verðum við að horfa á þetta heildrænt og horfa líka á þessa sögu sem ég var að rekja með hin og þessi ríki og sjá hvenær viðskiptaþvinganir eða skortur á fríverslunarsamningum gengur upp, eins og var nefnt hér á undan af hv. þingmanni sem hér stóð á undan mér um Apartheid-stjórnina í Suður-Afríku. Það er alveg ljóst að einn stór þáttur í falli hennar voru þær þvinganir sem hún var beitt. Sennilega væri affarasælast ef alþjóðasamfélagið, EFTA-ríkin, Evrópusambandið, tækju sig saman og settu fingurklemmurnar á stjórn Filippseyja, þá valdastétt, skulum við kalla það, sem þar er, pólitískt og hvað viðskipti snertir. Því að þetta er jú mat.

Það eru tugir ríkja sem við höfum einhver samskipti við sem eru ekki í lagi. Við reynum að meta það — ég þori ekki að nota orðið kalt — hvenær orðið er nauðsynlegt að fresta fríverslunarsamningum eða ganga ekki til þeirra, slíta stjórnmálasambandi eða hvað það kann að vera; eftir efnum og ástæðum þá er þetta mat. Í þessu tilviki dettur mér ekki í hug að halda því fram að þessar aðgerðir, þ.e. fríverslunarsamningur eða ekki, hafi úrslitaáhrif. Þetta dugar ekki, sagði hv. þm. Pawel Bartoszek. Nei, auðvitað dugar þetta ekki. En ef nógu mörg ríki taka sig saman og gera það sem gera þarf hefur það áhrif. Það er þess vegna sem ég held að rétt sé að við sýnum fordæmi og förum aðrar leiðir en hin EFTA-ríkin, sýnum fram á að þetta litla ríki, Ísland, hefur dug til að segja nei, eða segja: Við frestum þessum samningi. Því að sjálfsögðu erum við öll í þessum sal hlynnt fríverslunarsamningum við ríki almennt.

Ég held að það sé enginn efi í hugum mjög margra hér inni að það að samþykkja þessa fríverslunarsamninga núna er rangt skref.