146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

frumvarp um samninga um heilbrigðisþjónustu.

[15:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður er á svipuðum nótum og hv. þingmaður hér áðan. Ég ítreka að mér þykir þörf á og ástæða til að skerpa í lögum hvernig fyrirkomulag er á einkarekstri í spítalaþjónustu og er að hefja vinnu í ráðuneytinu til að skoða hvernig það sé best gert. Ég er meðvitaður um tillögu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur og held að að einhverju leyti sé rétt hugsun þar á bak við. Útfærslan má samt kannski ekki koma inn í að Alþingi þurfi að taka ákvörðun um samninga við hvern einasta tannlækni, þannig að við þurfum að útfæra hvernig við viljum gera þetta.

Það kemur mér að sumu leyti á óvart þegar ég fer að kafa ofan í þessa sögu að gerð var breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu 2007 þar sem tekið var út ákvæði um að ráðuneyti þyrfti að veita sérstakt starfsleyfi fyrir slíkri starfsemi. Ég velti því fyrir mér, kannski einkum eftir alla þá umræðu sem varð hérna fyrir ekki mörgum misserum um mögulegt og væntanlega mögulegt einkasjúkrahús sem átti að byggja uppi í Mosfellsbæ, ef ég man rétt, að Alþingi skyldi ekki hafa borið gæfu til að taka skurk í því að skoða þessi mál þá. En ég mun og er að beita mér í ráðuneytinu fyrir því að skoða þetta.

Varðandi fjármálaáætlun erum við auðvitað að ræða hana á miklu stærri grundvelli en í henni er gert ráð fyrir verulegri innspýtingu í málaflokk heilbrigðismála, vissulega að miklu leyti í uppbyggingu nýs Landspítala en það er ekkert aukaatriði í þróun og uppbyggingu íslensks heilbrigðiskerfis, það er þvert á móti lykilatriði. Í þeirri áætlun er sömuleiðis talsvert fleira af nýjum og mikilvægum verkefnum sem munu styrkja íslenska heilbrigðisþjónustu næstu fimm árin.