146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

tölvukerfi stjórnvalda.

[14:19]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þakkir til málshefjanda og þakkir til hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin. Mér þótti mjög áhugavert að ræða þetta mál hér á þingi og í þessum sal og var kannski frekar að horfa til upplýsingasamfélagsins almennt og hvernig hægt væri að hagræða í opinberum rekstri og veita betri þjónustu með gegnsærri og góðri opinberri stjórnsýslu. Staðreyndin er sú að þó að við höfum mjög góð tæki og tól og flest heimili séu nettengd þá höfum við almennt ekki verið að nýta þetta til fullnustu og komum ekkert sérstaklega vel út í mælingum hvað það varðar. Ég var með skýrslu um upplýsingasamfélagið, sem er reyndar komin aðeins til ára sinna og ég geri ráð fyrir að verið sé að vinna að nýrri stefnumótun á því sviði því að stefnan gildir til ársins 2016, en það er alveg ljóst að þarna eru mikil tækifæri. Við höfum sett okkur markmið um að komast upp í 15. sætið í svokölluðum stjórnsýslustaðli hjá Sameinuðu þjóðunum. Ef ég les rétt út úr nýrri skýrslu sem kom út 2016 erum við í 27. sæti og augljóst að við höfum ekki náð markmiðum okkar hvað þetta varðar. Þarna eru því klár tækifæri til að bæta okkur. Ég fagna því sem kemur fram í ágætri fjármálaáætlun okkar um mikilvægi opinberrar rafrænnar stjórnsýslu og tækifæri sem þar leynast. Þar er einmitt komið inn á þetta með samhæfingu. Við náum ekki árangri öðruvísi en að samhæfa okkur í því.

Mig langar líka að nefna eitt sem er mjög mikilvægt í allri þessari umræðu og það eru netöryggismál. Netöryggissveitirnar okkar og stefnan okkar um netöryggi — það er líka ljóst að þar erum við býsna veik fyrir. Séum við enn að vinna okkur áfram í því að bæta rafræna stjórnsýslu, sem ég held við séum öll sammála um að gera, þurfum við að huga sérstaklega að þeim þætti. Aðeins er komið inn á það í fjármálaáætluninni að við séum að fara í mat hjá (Forseti hringir.) Oxford-háskóla sem mun taka út þroskastig okkar í netöryggismálum og það er gott. En ég vona svo sannarlega að við höfum svo tækifæri til að fylgja því eftir.