146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

Matvælastofnun.

370. mál
[15:00]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. „Neytendur blekktir enn og aftur. Hver ber ábyrgð?“ Svona hljóðar fyrirsögn uppkasts að grein sem skrifuð er á seinasta ári þegar eitt stærsta hneykslismál síðari tíma varðandi neytendavernd og dýravernd kom upp á yfirborðið. Þar átti ég við þær blekkingar sem íslenskir neytendur höfðu verið beittir árum saman við kaup á svokölluðum vistvænum eggjum þar sem dýravelferð var látin mæta afgangi, eins og sjónvarpsáhorfendur fengu að kynnast. Margir stukku til og gagnrýndu Matvælastofnun fyrir sleifarlag og linkind í samskiptum við Brúnegg ehf. og fyrir tregðu við að afhenda fjölmiðlum gögn sem sneru að þessu máli

Svo fór að lokum að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lét vinna allítarlega skýrslu sem birtist svo 27. mars sl. og er umfjöllunarefni okkar hér og nú.

Skýrsluhöfundar tala um tvenns konar áskoranir sem stofnunin stendur frammi fyrir. Í fyrsta lagi að hún nái ekki að sinna öllum lögbundnum skyldum sínum og að álag sé mikið, að langtímaveikindi séu tíð og merki um þreytu og kulnun sjáist meðal starfsfólks. Þessi liður er sérstaklega áhugaverður í ljósi þess að í umræðum um fjármálaáætlun sem þingmenn ræða þessa dagana má sjá að stofnunina skortir að eigin mati 140 milljónir til að hægt sé að fjölga starfsmönnum og taka á þessum vanda. Hin áskorunin sem nefnd er hér sérstaklega er sú að ekki hafi tekist að stilla saman strengi þannig að úr yrði samstillt heild og ímynd stofnunarinnar út á við væri ekki góð.

Í öðrum hluta skýrslunnar, „Úrbótatækifæri í innra starfi“, er farið yfir helstu atriði sem taka þarf til athugunar varðandi núverandi stöðu og starfsemi Matvælastofnunar. Þar segir undir liðnum „Stefna og áherslur“, með leyfi forseta:

„Eins og mál standa nú liggur ekki fyrir heildstæð stefna stjórnvalda um matvælaeftirlit í landinu (matvælastefna). Eftirlitið er unnið af tveimur aðilum, þ.e. MAST annars vegar og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga hins vegar. Með það í huga að HES skiptist í tíu sjálfstæða aðila, með framkvæmdastjóra á hverju svæði fyrir sig, má í raun segja að 11 aðilar sinni þessu eftirliti. Það hefur komið skýrt fram í athugunum höfunda að þetta fyrirkomulag er ýmsum vandkvæðum bundið og veldur óhagræði og ósamræmi í framkvæmd eftirlits. Við samanburð á matvælaeftirliti í nágrannalöndum Íslands kom fram að heildstæð matvælastefna er fyrirliggjandi auk þess að þróunin hefur verið í þá átt að færa matvælaeftirlit á eina hendi. Burt séð frá þessu kom fram að óljós stefna og framtíðarsýn á þessu sviði gerir erfiðara um vik að skilgreina umfang og árangur, sem aftur er grundvöllur þess að stilla saman væntingar stjórnvalda, eftirlitsþega og stofnunarinnar um hvað einkenni æskilegt matvælaeftirlit. Við leggjum til að ráðist verði í stefnumótun af þessu tagi með víðtæku samráði hagsmunaaðila, en bendum jafnframt á eftirtalin verkefni sem brýnt er að huga að nú þegar:

Hafa samráð við hagsmunaaðila við gerð frumvarps um MAST […]

Skipuleggja umræðu milli ráðuneytisins og MAST um hlutverk og áherslur í starfseminni sem verði leiðarljós stjórnenda við mótun og framkvæmd stefnu og markmiða. Í þessu verkefni felst að ræða samræmi og samspil milli MAST og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.

Skapa nauðsynlegt rými til þess að vinna með stefnumótun á einstökum sviðum með þátttöku helstu lykilstarfsmanna til þess að dreifa eignarhaldi og tryggja samstöðu um þau verkefni sem vinna þarf stefnunni til framdráttar. […]

Vinna markvisst með innleiðingu fyrirliggjandi gilda MAST þannig að um þau ríki skilningur og samstaða og verði starfsmönnum mikilvægt leiðarljós um áherslur og nálgun í starfsemi og þjónustu.

Styrkja vinnslu og miðlun upplýsinga um starfsemi, rekstur og árangur til þess að skapa samstöðu og ábyrgðartilfinningu gagnvart hlutverki og árangri stofnunarinnar.“

Ýmsar fleiri tillögur eru nefndar til úrbóta á bls. 40 og þar á eftir er talað um ýmislegt á borð við samstarf við ráðuneyti, stefnumótun, fjármögnun, skoðanatíðni, faggildingu Matvælastofnunar, en þar er sérstaklega verið að horfa á sérstakan ISO staðal. Fjallað er um skoðanastofur, verklagsreglur, um þvingunaraðgerðir, endurmenntun og viðhaldsmenntun, starfsleyfi dýralækna og svo mætti lengi telja.

Virðulegur forseti. Hverfum aftur til fortíðar og skoðum forsögu Matvælastofnunar. Það er ekki að ástæðulausu að sagnfræðingur stendur hér í pontu. Landbúnaðarstofnun, matvælasvið Umhverfisstofnunar og matvælasvið Fiskistofu voru sameinuð undir merkjum Matvælastofnunar árið 2008. Matvælastofnun heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og starfar samkvæmt lögum nr. 80/2005. Engin heildstæð löggjöf segir til um hlutverk hennar þó að hún hafi starfað í níu ár, heldur er vísað í 21 mismunandi lög og rúmlega 300 reglugerðir í tengslum við starfsemi hennar og verkefni. Verkefnum stofnunarinnar hefur fjölgað í áranna rás.

Á heimasíðu MAST kemur fram að hún sinni, með leyfi forseta:

„Stjórnsýslu, eftirliti, fræðslu og þjónustu við sjávarútveg, landbúnað, fyrirtæki og neytendur, í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla.“

Matvælastofnun hefur frá upphafi sætt harðri gagnrýni, ekki síst af hálfu aðila í búrekstri. Hafa fjölmiðlar oftsinnis fjallað um mál í því sambandi. Ríkisendurskoðun tók starfsemi Matvælastofnunar til gagngerrar skoðunar og skilaði ítarlegri skýrslu til Alþingis í nóvember 2013. Þar er atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu bent á að setja þurfi lagaramma um stofnunina þar sem skýrt sé kveðið á um hlutverk hennar, verkefni, stjórnun og fleira. Auk þess sem spurt er hvort matvælaeftirlit á Íslandi verði ekki skilvirkara, hagkvæmara og árangursríkara ef það verði sameinað á eina hendi. Herra forseti. Þetta hljómar nú allt saman voðalega svipað eins og í þeirri stóru skýrslu sem við erum að fjalla um núna. Þá benda skýrsluhöfundar á að fjármagn verði að fylgja þeim lögbundnu verkefnum sem MAST er ætlað að sinna auk þess sem ráðuneytið þurfi að skilgreina betur ábyrgðarmörk milli þess og stofnunarinnar.

Tveimur og hálfu ári síðar, nánar tiltekið í apríl 2016, skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu um eftirfylgni við málið. Þar kom í ljós að ráðuneytið hafði ekkert gert til að bregðast við ábendingunum. Einhvern tímann í febrúar, held ég það hafi verið, kvaddi ég mér hljóðs undir liðnum störf þingsins og gagnrýndi harðlega hversu lítið væri gert með skýrslu Ríkisendurskoðunar og tiltók þessa sérstaklega, þ.e. þá sem var frá 2013 og eftirfylgniskýrsluna frá 2016. Það þurfti nefnilega litla þúfu til að velta þessu þunga hlassi, það var þetta Brúneggjamál sem upp kom í nóvember á síðasta ári. Ekkert var gert með skýrslurnar fram að því. Það er mjög gagnrýnivert.

Virðulegur forseti. Þá er ég kominn að milljón dollara spurningunni: Hver ber ábyrgð? Auðvitað ber sá aðili sem níðist á skepnum ábyrgðina og enginn annar.

Mér sýnist þó að ráðuneytið hafi að einhverju leyti brugðist. Ef Alþingi hefði borið gæfu til að marka sér heildarstefnu í matvælaeftirliti og búa til heildstæða löggjöf um Matvælastofnun og verkefni hennar, t.d. með því að fara eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2013, þá værum við líklega ekki að ræða um þessa stofnun hér og nú.