146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[22:36]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það. Við höfum ágætistíma núna ef hv. allsherjar- og menntamálanefnd ákveður að senda þetta mál strax til umsagnar þá berast þær að minnsta kosti eftir tvær vikur eða innan þeirra. Við höfum þá ágætistíma til að fara yfir þær.

Í þessum málum, eins og ég kom að áðan, er mjög mikilvægt að við náum að skapa sem breiðasta samstöðu á Alþingi til að breytingar af þessu tagi geti farið fram sem skyldi og svarað þeim spurningum sem vakna hjá hv. þingmönnum í kringum svona breytingu. Hún er auðvitað stór; þótt hún sé varfærin að mínu viti er hún samt stór.

Ég vonast til þess að við getum að minnsta kosti náð góðri umræðu á því þingi sem nú er. Ef það dregst getum við jafnvel náð að afgreiða málið ef vilji er fyrir því. Ég sé bara í þessu tækifæri til að efla þátttöku. Ég lít þannig á málið. Við heimsóknir í framhaldsskóla, til að mynda fyrir síðustu kosningar en líka á hvaða tíma sem er, finnur maður fyrir svo miklum pólitískum áhuga. Það voru gríðarleg vonbrigði að sjá þátttökuna í síðustu sveitarstjórnarkosningum hjá ungu fólki. Þá veltir maður fyrir sér: Hvernig getur farið saman þessi mikli pólitíski áhugi, sem maður finnur fyrir við heimsóknir í skóla, og svona dræm þátttaka? Þarna held ég að margt fari saman. Þarna skipta skólarnir máli eins og hv. þingmaður nefndi. Stjórnmálaflokkarnir skipta líka máli, hvernig þeir nálgast ungt fólk og hvaða aðferðum þeir beita til að virkja ungt fólk og koma því til áhrifa. Síðast en ekki síst held ég að það skipti máli fyrir ungt fólk að upplifa að því sé treyst.