146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

fjármálaáætlun og nýting skattfjár.

[13:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Veigamesta verkefnið sem stendur fyrir dyrum er að ákveða með fjármálaáætlun hvernig við ætlum að verja öllu skattfé landsins næstu fimm árin, flokka það niður, setja það niður fyrir okkur. Þá ákvörðun er ómögulegt að taka á upplýstan hátt eins og áætlunin hefur verið lögð fram fyrir þingið. Það er ómögulegt að sjá í fjármálaáætluninni í hvað sé áætlað að nota nánast allar þessar fjárheimildir ríkisins. Hvorki þingmenn né fastanefndir hafa fengið aðgang að þessum upplýsingum um hvað sé mögulegt að gera við allt þetta fjármagn, hvað eigi að gera við það, hvað sé áætlað að gera við það. Án þessara upplýsinga er ómögulegt að taka upplýsta ákvörðun um hvort fjármálaáætlun sé farsæl fyrir landsmenn og hvort vel sé farið með skattfé.

Skortur á gagnsæi til Alþingis og almennings í þessari fjármálaáætlun er nánast algjör þrátt fyrir að þessar tölur liggi fyrir í ráðuneytunum og hjá skrifstofu Alþingis. Tölurnar liggja fyrir en við fáum ekki aðgang að þeim við þessa ákvarðanatöku.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, sem talað hefur fyrir því að opna bókhald ríkisins: Hefur hæstv. fjármálaráðherra aðgang að þeim upplýsingum sem liggja til grundvallar þessari áætlun? Ef ekki, mun hann þá ekki óska eftir slíkum aðgangi? Ef ráðherra hefur þann aðgang, eða þegar hann fær þann aðgang, mun hann jafnframt veita okkur þingmönnum aðgang?