146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:30]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Mig langar í þessari síðari ræðu minni að beina orðum mínum til frummælanda og gera að umtalsefni stefnu flokks hans í menntamálum. Geymum þetta tiltekna dæmi þegar kemur að sjálfstæðum rekstri. Nú er t.d. að taka til starfa nýr framhaldsskóli á sviði tónlistar. Það er meiri einkarekstur og við getum tekið þá afstöðu að þarna sé verið að þenja út einkakerfi á kostnað opinbera kerfisins. Hvað eigum við þá að gera?

Hvað segja Píratar? Mér finnst Píratar stundum tala um heildstæða stefnumótun, opið og gegnsætt ferli og hv. þingmaður sagði að það þyrfti að spyrja þjóðina því að við sætum í hennar umboði.

Á að spyrja þjóðina um nýjan menntaskóla í tónlist sem rekinn er af einkaaðilum? Bak við þessar sakleysislegu fullyrðingar finnst mér nefnilega liggja ansi mikið ákall um meirihlutaræði, að meiri hlutinn ráði. Meirihlutaviljinn á að trompa menntunarfrelsið og atvinnufrelsið og það eru líka ákveðin mannréttindi.

Mér finnst það mikið stjórnlyndi. Ég kalla eftir meiri frjálshyggju frá hv. þingmönnum Pírata af því að innan Pírata er enn til fólk sem, ótrúlegt en satt, kallar sig frjálshyggjumenn. Ég verð að segja að mér finnst það ansi þrautseigt fólk.

Og ég var nú Evrópusinni í Sjálfstæðisflokknum í 17 ár.