146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skógar og skógrækt.

407. mál
[17:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þann góða hljómgrunn sem þetta frumvarp fær hér í ræðu hv. þingmanns. Hann spurði um sýn mína á það hversu stóran hlut skógræktin ætti að hafa í loftslagsmálunum. Ég tel að það að planta nýjum skóg eigi að hafa mjög stóran hlut í loftslagsmálunum. Við höfum tækifærin til þess. Hér eru skógar einungis á um 1,2% alls landsins. Það er ekki neitt í líkingu við hin löndin sem eru með okkur í Parísarsamkomulaginu.

Eins og hv. þingmenn þekkja snýst samkomulagið um að draga úr losun, en við getum líka bundið. Þá kemur að því að mælikvarðar í Parísarsamkomulaginu eru almennir. Ekki er búið að leggja nákvæmlega fram alla þættina, en það upplýsist þá hér með að ég hef á fundum mínum erlendis, meðal annars með kommisjóninni í þessum málum, verið að leggja áherslu á hlut Íslendinga í landgræðslu og skógrækt. Við erum talsvert öðruvísi en önnur lönd sem eru þegar skógi vaxin og eru ekki mikið að fást við landrof eða erfiða landnýtingu á ýmsum svæðum eins og við. Því skiptir það okkur meginmáli að við fáum að telja þetta inn í Parísarsamkomulagið. Það kostar dálitlar samningaviðræður, það verður að segjast alveg eins og er. En ég vil (Forseti hringir.) láta hv. Alþingi vita af því að ég held þessu statt og stöðugt fram fyrir okkar land því að við búum við annað umhverfi en önnur lönd í Evrópu.