146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skógar og skógrækt.

407. mál
[17:38]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég biðst forláts á óhljóðunum sem fylgdu mér, þótt Dylan gæði nú líf allra. Ekki ætla ég að hafa mál mitt allt of langt svo hæstv. ráðherra geti nú átt gæðastund hér á eftir. Réttast væri að forseti tæki tillit til þess í dagskránni að allir vilji eiga slíkar stundir, en sennilega yrði mér útskúfað úr ætt minni úr Þjórsárdal ef ég tæki ekki til máls um skógrækt, því að þar hefur verið stunduð skógrækt árum og áratugum saman á jörð sem verið hefur í eigu einhvers úr fjölskyldu minni. Langafi minn seldi Skógræktinni fyrsta skikann, svo afi minn. Þarna er mikil skógrækt. Ég hef séð það með eigin augum hversu mikil áhrif skógrækt getur haft, eins og við svo sem öll en kannski í meira návígi en margir, og þá ekki síst þarna á þessu svæði þar sem Hekla lætur reglulega á sér kræla og hefur áhrif á umhverfi sitt.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt mjög langt, bara þannig að ég geti sagt frændfólki mínu að ég hafi þó tekið til máls. Þó ætla ég að minnast á ákveðna hluti sem aðrir hv. þingmenn hafa talað hér um og svo aðeins að koma inn á svipuð sjónarmið og ég setti fram í umræðum um Landgræðsluna þegar við ræddum hana í síðustu viku.

Það er gott að heyra áhuga hæstv. ráðherra á skógrækt og uppgræðslumálum. Það er engum blöðum um það að fletta að hæstv. ráðherra hefur víða talað um þau mál og um umhverfismál og loftslagsmál. Ég verð samt að taka undir með hv. þingmönnum sem talað hafa um það, og hef ég svo sem gert það sjálfur áður, að betra væri ef það væri ljósara hvaða fjármunir fylgdu með þessum háleitu hugmyndum, sem ég styð heils hugar, og að þeir fjármunir væru meiri. Milljarður í umhverfismál í viðbót, sagði hæstv. ráðherra áðan. Ég held að í venjulegu árferði væri það bara eðlileg þróun í þessum málaflokki sem orðið hefur æ fyrirferðarmeiri. En í þeirri stöðu sem við erum nú; við erum nýbúin að skrifa undir loftslagsmarkmið, við erum búin að skrifa undir Parísarsamkomulag, við erum nýbúin að ræða og taka á móti loftslagsskýrslu sem hæstv. umhverfisráðherra kallaði „svarta skýrslu“, ef ég man rétt, og tók mjög alvarlega, skuli ekki koma fram að ríkisstjórnin meini það sem hún segir í þessum málum, að fjármunirnir í þennan málaflokk skuli ekki vera auknir mun meira en raun ber vitni. Milljarður í þennan málaflokk, það er ekki mikið, það verður að segjast alveg eins og er. Vissulega má þó finna fjármuni víðar undir öðrum málaflokkum sem tengjast þessu, en í ljósi þess hvaða markmiðum á að ná er það beinlínis lítið.

Ég var mjög ánægður með viðbrögð hæstv. umhverfisráðherra við loftslagsskýrslunni. Mér fannst kveða við nýjan tón og hrósaði hæstv. ráðherra hér í pontu af því að ráðherra dró ekki fjöður yfir þá stöðu sem uppi er þar. Hún talaði tæpitungulaust um verkefnin fram undan og gerði ekki það sem mér hefur þótt margir ráðamenn hafa gert of mikið af í gegnum tíðina, þ.e. hún flaggaði ekki einhverri ímynd Íslands og fyrri afrekum á sviði umhverfismála, heldur horfðist beint í augu við vandann og virtist ætla að taka á honum af festu. Þess vegna urðu vonbrigðin enn meiri þegar ég sá fjármálaáætlunina og sá hve litlir fjármunir eru ætlaðir í þessi mál.

Við ræðum hér skógrækt. Hv. þingmenn á undan mér hafa komið inn á það, og raunar hæstv. ráðherra líka, hversu mikil tækifæri eru þar. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson fór ágætlega yfir stöðuna hjá Skógræktinni eftir hrun sem ekkert hefur verið bætt í, sem er í raun og veru hraksmánarlegt, því að þarna eru ekki upphæðir af þeirri stærðargráðu að hefði átt að spara. Hæstv. ráðherra sagði í pontu áðan að allir innviðirnir væru til staðar, það ætti nánast bara eftir að fara út í búð og kaupa plöntur. Ég er alveg sammála ráðherranum í því. Ég held nefnilega að bara það að auka fjármuni í plöntukaupin — og vissulega þyrfti þá að ráða eitthvert starfsfólk til að sjá um gróðursetningu og fleira, en ekki alls staðar. Það er allt til staðar til að bæta verulega í. Við vitum hvert við ættum að stefna með þetta.

Við erum nýbúin að ræða loftslagsskýrsluna. Þar er einfaldlega sagt að það þurfi tvöföldun til fjórföldun á skógrækt til að bregðast við ef við ætlum að reyna að ná þeim markmiðum sem við höfum undirgengist í umhverfismálum. Ekki er að sjá í fjármálaáætluninni að það eigi að gera. Skógræktin hefur ekki fengið neinar meldingar þar um að verið sé að auka fé.

Vegna þess að Skógrækt ríkisins hefur ekki fengið aukið fjármagn og ekki hefur verið bættur upp sá niðurskurður sem farið var í vegna þess að þjóðfélagið, efnahagslífið, fór nánast á hausinn, standa gróðrarstöðvar ekki vel. Það eru örfáar gróðrarstöðvar eftir og þær standa ekkert sérstaklega vel. Ef ekkert á að gera á næstu árum, ef ekki verður bætt í, sem ég vona annars sannarlega að verði gert, getur umhverfið orðið allt annað þegar kemur að gróðrarstöðvum og plöntusölu.

Við erum ekki að tala um einhverjar gríðarlega háar upphæðir. Við erum að tala um nokkur hundruð milljónir kannski sem þyrfti til að fara í þá tvöföldun til fjórföldun í skógrækt sem boðuð er. Nokkur hundruð milljónir af einum milljarði eru hins vegar dálítið mikið. Það er þar sem vonbrigði mín liggja helst. Ég fagna því að hæstv. ráðherra sé í viðræðum við einhverja aðila, stóriðjuna og fleiri, um að koma að einhverju slíku verkefni. Ég fagna því ekki að jafn mikilvægur málaflokkur og hér um ræðir sé undir vilja slíkra aðila kominn, að það þurfi að koma til þess að fyrirtæki leggi fram fjármagn til þess að við tökum þessi mál alvarlega eins og við töluðum um í upphafi þings og hæstv. ráðherra talaði um í upphafi þings og ég fagnaði við upphaf þings.

Ég hefði kosið að við tækjum þessi mál alvarlega. Mér hefur þótt bera um of á því þegar kemur að umræðum um fjármálaáætlun að stjórnarflokkarnir slái dálítið úr og í. Stundum er fjármálaáætlun einhver heilagur rammi sem allt skal vera innan næstu fimm árin, það kemur sérstaklega frá hæstv. fjármálaráðherra, en svo tala hæstv. fagráðherrarnir sumir hverjir eins og það sé allt uppi á borðinu. Ég mun berjast fyrir því að staðinn verði vörður um stjórnarskrárvarið fjárveitingavald Alþingis. Ég hvet hæstv. umhverfisráðherra til að nýta sér þann velvilja sem ég veit að er hér í salnum til þess að sækja meiri fjármuni inn í málaflokkinn.

Þetta er tillaga um fjármálaáætlun. Ég hygg að ef hæstv. umhverfisráðherra myndi beita sér fyrir því að út úr þeirri tillögu yrði gerð breytingartillaga um aukna fjármuni í umhverfismál þannig að úr meiri fjármunum væri að moða þegar kæmi að skógræktinni, sem við erum hér hvert á fætur öðru búin að lýsa yfir að sé svo mikilvæg, hygg ég að hæstv. ráðherra gerði sér fullkomlega grein fyrir því að hún hefði meiri hluta fyrir því í þingsal.

En almennt um þetta frumvarp. Ég ætla að mestu leyti að vísa til orða minna í umræðunni um Landgræðsluna. Þar kom ég aðeins inn á það að ég óttast pínulítið að með þessu nýja regluverki — nú verður maður að gæta orða sinna hvað varðar lagatæknilegu hugtökin — um einhvers konar heildarlög, eða hvað má kalla þau, lög um skógrækt og svo um landgræðslu, muni það festa það stofnanakerfi í sessi sem við búum við í dag. Ég er ekki endilega viss um að það sé skynsamlegt. Ég er ekki með fastmótaðar tillögur eða stefnu um hvað væri best í því, en ég er sannfærður um að rétt sé að setjast yfir það og skoða það.

Hér hefur verið nefnd sameining stofnana og fleira í þá veru, jafnvel nýjar stofnanir, það er ýmislegt sem hér hefur verið velt upp. Ég hefði ráðlagt hæstv. ráðherra að skoða málin örlítið betur og koma með fullmótaðri stefnu í þessum málum í haust, af því að hér er að miklu leyti byggt á vinnu fyrri ríkisstjórnar. Ég hef heldur ekki heyrt rökin gegn því að fara í t.d. sameiningu. Ég hef heyrt: Jú, við erum alveg tilbúin að skoða það einhvern tímann í framtíðinni. Ég held að með því að samþykkja þessi heildarlög og þetta fyrirkomulag núna séum við að festa það í sessi. En það þarf ekki að vera. Við sjáum hvernig það fer, en það er það sem ég hef pínulitlar áhyggjur af.

Ég hef talað fyrir því og ætla að ljúka máli mínu hér á að endurtaka það að við þyrftum að fara að skoða þetta stofnanakerfi allt og þá um leið málaflokkinn allan og hvar hann er í kerfinu, þar með talið hér í þingsal, að vistheimtin ætti að vera númer eitt, tvö og þrjú. Það ætti að vera í forgrunninum, svo stofnanirnar undir því, ein eða tvær eða þrjár, eða hvað þær eru margar, einhvers konar stofnanir um vistheimt, ekki þannig að maður þurfi virkilega velta því fyrir sér hvað eigi heima hvar í hvaða stofnun, heldur sé vistheimtin alltumlykjandi, sem hún er að einhverju leyti, en því er bara skipt niður núna. Ég held að þurfi að snúa hlutunum á haus og setja hana í forgrunn. Ég bíð spenntur eftir því þegar hæstv. ráðherra fer í skoðun á ýmsu sem hún hefur lýst sig reiðubúna til að gera í þessum umræðum, bæði þessu máli og hvað Landgræðsluna varðar.