146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

505. mál
[18:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Forseti. Kannski ég byrji á síðustu spurningunni. Það má segja að 100 milljónirnar hafi dregið svolítinn dám af þeim 100 milljónum sem voru í síðustu aðgerðum sem ákveðnar voru vegna þeirrar afléttingar sem var í fyrra. Þá var það þannig að Íslendingar og íslensk fyrirtæki máttu taka út fyrir 100 milljónir. Það voru kannski ekki meiri vísindi á bak við það. Þó höfum við aflað okkur upplýsinga frá Seðlabankanum um hvert væri líklegt umfang. Þeir meta það með þessum hætti, að það muni hreinsa töluvert til í eignasafninu en það verður að muna að þetta er á ákveðnum reikningum og ætti að vera tiltölulega auðvelt að hafa eftirlit með þessu. Ég hef ekki heyrt þær áhyggjur frá Seðlabankanum að menn geti farið fram hjá því. Eftir því sem aðilunum sem eiga þessar eignir fækkar hlýtur eftirlitið að verða auðveldara. Kannski verða örfáir aðilar eftir sem eiga fjárhæðir sem nema milljörðum.