146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

um fundarstjórn.

[19:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með félögum mínum. Það er hálfankannalegt að standa frammi fyrir því að eiga að sitja og bíða eftir því að ráðherra komi í hús og taka þingmannamál inn á milli. Ég tek undir orð hv. síðasta ræðumanns. Ég held að það sé skynsamlegt að taka málið af dagskrá. Þá getum við haldið áfram með dagskrána í stað þess að bíða hér í tvo tíma eða eins og verið var að leggja drög að, að einhver annar ráðherra kæmi og mælti fyrir málinu. Hvenær var ljóst að ráðherrann gæti ekki komið og mælt fyrir málinu? Við greiddum atkvæði um afbrigði klukkan fjögur í dag. Ef það hefur ekki legið fyrir væri ágætt að vita það. Eða hvort þetta lá fyrir núna rétt fyrir kvöldmatarhlé. Þá átti forseti að taka málið af dagskrá ef ráðherra hefur ekki tök á að mæla fyrir því. Það er mjög sérstakt (Forseti hringir.) að leitað sé afbrigða þegar það liggur fyrir að ráðherrann er ekki í bænum, virðist vera, (Forseti hringir.) til þess að geta mælt fyrir því eða að eitthvað geti komið upp á. Þetta eru ólíðandi vinnubrögð.