146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[22:13]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég er á því að við þurfum að taka til í okkar eigin ranni, ekki bara gagnvart erlendum starfsmönnum hér.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að lágu launin í þessu landi eru fyrir neðan allt velsæmi. Það á kannski sérstaklega við um hefðbundin kvennastörf í umönnunargeiranum og í ræstingum og slíku, en það á líka við um þá sem þiggja samfélagslaun frá Tryggingastofnun eða frá lífeyrissjóðum.

Það er margt sem plagar þetta samfélag okkar þó að það sé mjög gott að öðru leyti. Hér er allt of langur, hér er allt of (Gripið fram í.) já, vond ríkisstjórn, (Gripið fram í: Hvaða, hvaða.) það er vond ríkisstjórn, það er rétt, ég þakka ábendinguna, en það er líka of langur vinnudagurinn hérna og of löng vinnuvikan. Við gefum ekki fjölskyldum og börnum nægilegt tækifæri til þess að njóta lífsins og dagsins og vikunnar og mánaðanna vegna þess að það er hálfgerð vinnuþrælkun í gangi hér. Við erum ægilega gjörn á það, Íslendingar, að afsaka allt með vinnu. Nei, ég má ekki vera þessu, ég þarf að vinna. Bara þessi setning, ég þarf að vinna, afsakar alveg ótrúlega margt á Íslandi en ekki endilega annars staðar. Þar þykir ekki gott að vera vinnualki eins og kannski þykir heldur of fínt hér hjá okkur.