146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

Landhelgisgæslan og endurnýjun þyrluflotans.

[16:54]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu. Það er greinilegt að honum eru öll mál fljúgandi véla viðkomandi. Ég fagna áformum ríkisstjórnarinnar um að endurnýja þyrluflota Landhelgisgæslunnar. Endurnýjunin er tímabær, líkt og fram kom í skýrslu stýrihóps sem skilað var árið 2016. Einungis önnur af núverandi leiguflugvélum er nothæf til björgunaraðgerða við íslenskar aðstæður og slíkt getur ekki talist ákjósanlegt. Samkvæmt fjármálaáætlun 2018–2022 mun endurnýjunin auka rekstraröryggi og hagkvæmni að ónefndu öryggi landsmanna og ferðamanna bæði á landi og úti á sjó.

Uppfærður floti er einnig hlekkur í utanríkisstefnu Íslands þar sem við þurfum að vera viðbúin að gegna okkar skyldum í öryggismálum. Nýi blindflugsbúnaðurinn í TF-LÍF er einnig tímabær. Vert er að minnast á góð áform um að innleiða tæknilegar nýjungar á borð við sjálfvirkt auðkenningarkerfi skipa í gegnum gervitungl og nýtingu þekkingar og búnaðar Landhelgisgæslunnar til mælinga á hafsbotninum við Ísland með nútímatækni.

Merkilegust þykir mér þó aðkoma íslensku Landhelgisgæslunnar að alþjóðlegu samstarfi. Í fjármálaáætluninni reyndist ekki svigrúm til að halda úti rekstri flugvélarinnar TF-SIF að fullu og þá er gott að geta stuðst við alþjóðasamfélagið. Til að brúa bilið hefur flugvélin tekið þátt í verkefnum á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins. Þetta er kannski ekki ákjósanlegasta staðan en engu að síður vel ásættanleg. Eins og fjármálaáætlunin kemur inn á er mannauði Landhelgisgæslunnar viðhaldið með þessum erlendu verkefnum. Til baka kemur starfsfólk með meiri reynslu og þekkingu.

Virðulegi forseti. Ég tel brýnt að við höldum við flota Landhelgisgæslunnar af öryggisástæðum og einnig í ljósi sívaxandi alþjóðlegs samstarfs á sviði varnar- og björgunarmála.