146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

dómstólar og breytingalög nr. 49/2016.

481. mál
[15:12]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað þessi tæknimál varðar er það einkum tvennt sem ég vil nefna; annars vegar það sem ég lýsti í fyrra svari mínu við andsvari, þ.e. varðandi upptökukerfið og annað, sem er forsenda fyrir snurðulausum málflutningi fyrir Landsrétti, það er allt að því nauðsynleg forsenda þess að hann gangi vel. Það er upptökutæki annars vegar hjá héraðsdómstólunum og afspilunartæki hjá Landsrétti. Það er í ágætisfarvegi og er gert ráð fyrir því. Ég veit nú ekki hvort búið er að kaupa slíkan búnað en það er a.m.k. unnið að undirbúningi á kaupum á slíkum tækjum.

Varðandi hitt atriðið; ef ég skil hv. þingmann rétt þá er það alveg rétt að dómstólarnir í héraði og Hæstiréttur hafa byggt vinnu sína að nokkru á málaskrárkerfi. Það hefur lengi verið ætlunin að þessi málaskrárkerfi geti talað saman, ekki bara á milli dómstólanna heldur líka við t.d. ákæruvaldið og lögreglu. Það er lengri tíma verkefni sem við höfum fullan hug á að vinna að áfram. Það er í undirbúningi.

Ég gerði ráð fyrir tiltekinni fjárhæð fyrir héraðsdómstólana í þeirri fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir þinginu til þess að endurnýja málaskrárkerfi sitt, sem er auðvitað algjör forsenda þess að áfram verði unnið að rafvæðingu réttarvörslukerfisins í heild. En málavörslu málaskrárkerfi héraðsdóms er fyrir löngu, ég mundi segja fyrir áratugum síðan, úr sér gengið og hefði þurft að endurnýja það. Gert er ráð fyrir einskiptiskostnaði til endurnýjunar á málaskrárkerfi héraðsdóms í fjármálaáætlun.

Svo er það í framhaldinu grundvöllur fyrir frekari vinnu og tenginga við aðra þætti réttarvörslukerfisins.