146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að koma beint að því sem hún endaði ræðu sína á, vangaveltum um Keflavíkurflugvöll og sölu eigna þar. Hún þekkir þau mál ágætlega þar sem hún hefur verið stjórnarmaður Isavia. Mér fannst hún sveiflast svo til varðandi þetta mál, úr og í, og yfir höfuð varðandi það hver séu helstu rökin fyrir því að einkaaðilar komi að þessum rekstri. Ef flugstöðin færi í hendur einkaaðila yrði um einokun að ræða. Þetta er eina flugstöðin sem er hér og innkoma í landið. Er einhver ávinningur af því að færa slíka einokun í hendur einkaaðila? Hafa opinberir aðilar ekki þörf á því að hafa þetta undir opinberri umsjá og hafa þá tekjur af þessu og geta ráðstafað þeim tekjum eftir því hver þörfin er?