146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[15:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er algjörlega hárrétt hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, að þessu máli er vitanlega ekki lokið. Þannig er að fjölmörg sveitarfélög hafa áskilið sér þann rétt að leita réttar síns fyrir dómstólum og þessi niðurstaða felur að sjálfsögðu ekkert það í sér að búið sé að leysa það eða koma í veg fyrir slíkt. Ég skrifa undir þetta álit með fyrirvara eins og framsögumaður las ágætlega upp hér áðan. Ég geri það hins vegar klárlega með óbragð í munni því að ég tel að um reglur jöfnunarsjóðs eigi ekki að leika neinn vafi, þær eiga bara að gilda, fjármunir sem þar fara inn eiga að fara út eftir þeim reglum o.s.frv. Með þeirri aðferð sem hér er komin er verið að bjarga einhverju loforði fyrir vind.

Ég ítreka því enn og aftur að málinu er að sjálfsögðu ekki lokið. Ég hugsa nú að ég og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé og fleiri höfum samt ekki sömu sýn á það hvernig eigi að ljúka því. En það er nú allt annað mál. Ég legg hins vegar áherslu á að nefndin komi saman milli 2. og 3. umræðu, taki síðustu umræðu um málið. Eins og við sjáum oft gerast á lokasprettinum þá er það nú oft þannig að upplýsingar berast og eitthvað nýtt gerist. Ég held að full ástæða sé til að gera það, frú forseti, og óska þar af leiðandi eftir því að nefndin komi stuttlega saman í kvöldmatarhléi til dæmis, að sjálfsögðu ræður nefndarformaður því. Ég held að full ástæða sé til að gaumgæfa málið örlítið betur áður en það er klárað hér í þinginu.