148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil segja í tilefni af þessu að við erum stödd í mjög afbrigðilegum aðstæðum hvað snertir alla tímaþröng. Ég held að það sé dálítið erfitt að taka djúpa umræðu um hvernig hlutirnir mættu gjarnan vera þegar aðstæður eru eins og þær eru. Ég skil alveg ábendingar hv. þingmanns varðandi fjárlagafrumvarpið eitt og sér, að það væri gott að hafa fengið álit fjármálaráðs. En þá vek ég athygli á því að slíkt álit fjármálaráðs mun ekki koma við hver fjárlög. Það kemur aðeins einu sinni, í tengslum við fjármálastefnuna, og svo kemur það þegar fjármálaáætlunin á vorin er lögð fram. (Gripið fram í.) Í því samhengi er svo sem hægt að horfa til síðasta álits fjármálaráðs vegna stefnunnar og lesa síðan inn í þau gögn öll saman. En ég ætla ekki að gera lítið úr þessum sjónarmiðum. Ég er einfaldlega sammála því. Og ég ætla líka að láta það fylgja að mér finnst frábært í raun og veru að við séum komin á þann stað í þinginu að gera kröfu um þessa röð mála vegna þess að þetta er nýtt. Við venjumst því mjög hratt að hlutirnir eigi að vera svona, að við séum með einhverja langtímasýn undirliggjandi og að frumvarp hvers árs þurfi að passa inn í þá langtímasýn og það sé eitthvert samhengi á milli ríkisfjármálaáætlunar og fjárlaga og það geti ekki verið neinar kollsteypur frá einni ríkisfjármálaáætlun til þeirrar næstu. Í því samhengi birtum við núna í fyrsta skipti með fjárlagafrumvarpinu þriggja ára sundurliðun í fylgiritinu, brotið niður á málefnasvið. (BLG: Það var líka seinast.) — Við erum að gera það í fyrsta skiptið þennan veturinn til framtíðar. Ég nefni þetta vegna þess að ný ríkisstjórn og nýir ráðherrar hafa í raun og veru engan tíma fengið (Forseti hringir.) til að leggja vinnu í þessa þriggja ára áætlun. Ég flagga þessu í því samhengi. Ef einhvers staðar má vænta þess að menn þurfi að hafa svigrúm til að gera breytingar er það kannski inni á síðari hluta gildissviðs fylgiritsins.