148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Forseti fyrirgefur væntanlega þeirri sem hér stendur, hversu rugluð ég verð við að hlusta á hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur tala um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, eftir að hafa hlustað á hana tala um mörg önnur fjárlagafrumvörp í stjórnarandstöðu. Og það er himinn og haf á milli í málflutningi hv. þingmanns.

Hv. þingmaður talar um að þetta frumvarp sé gott fyrsta skref. Finnst hv. þingmanni það þá gott fyrsta skref, eins og lagt er til í frumvarpinu, að barnabætur fari að skerðast við 242 þús. kr. á mánuði? Eitt helsta jöfnunartæki sem jafnaðarmenn nota um allan heim hefur verið að veikjast á undanförnum árum og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar augljóslega ekki að styrkja það kerfi.

Finnst hv. þingmanni það gott fyrsta skref að gera ekki neitt í vaxtabótum og húsnæðisbótum? Ekki neitt? Skila auðu í öðru mikilvægu jöfnunartæki sem notað er með góðum árangri og ekki síst á Norðurlöndum?

Hv. þingmaður talar um greiðsluþátttöku og það skiptir miklu máli fyrir almenning að greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu lækki; ég er sammála því. En finnst hv. þingmönnum það þá gott fyrsta skref að sá milljarður sem bætt er við í sérhæfða sjúkrahúsþjónustu í fjárlagafrumvarpinu — að þá sé gert ráð fyrir að 560 milljónir komi með aukinni gjaldheimtu af sjúklingum sem sækja sérhæfða sjúkrahúsþjónustu, sem er okkar veikasta fólk?