148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

útlendingar.

7. mál
[12:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst eins og við hæstv. ráðherra höfum staðið í þessum sporum áður. Í vor mælti ráðherrann fyrir frumvarpi um leiðréttingu á prentvillu í lögunum þar sem hafði slegið saman hugtökunum sambúð og hjúskapur þannig að einstaklingar urðu fyrir áhrifum af því. Nú erum við aftur að leiðrétta lögin. Mig langar að velta því upp með ráðherranum hvort þessar síendurteknu leiðréttingar og lagfæringar á lögum sem eru ekki einu sinni orðin eins árs kalli á einhver sérstök viðbrögð, hvort ráðuneytið þurfi að setjast niður og rýna lögin til að sjá hvort geti mögulega verið fleiri ágallar á þeim, áþekkir þessum tveimur sem ég hef nefnt. Þessar tvær leiðréttingar sem ég hef verið að nefna koma til út af fréttum, af því að einstaklingar eru að lenda í vandræðum vegna villu í lögunum. Mér þætti betri bragur á því ef löggjafinn og framkvæmdarvaldið myndu finna þessa ágalla áður en til þess kæmi þannig að einstaklingar þurfi ekki að reka mál sín í fjölmiðlum til þess að ná eyrum okkar, heldur værum við bara að laga hlutina fyrir fram. Er þetta eitthvað sem ætti heima í höndum ráðuneytisstarfsmanna sem gætu rýnt lagatextann með þetta fyrir augum? Ég myndi vilja heyra í ráðherranum með það.