148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[11:38]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli og hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Þetta er ekki í fyrsta skiptið og örugglega ekki í síðasta skiptið sem við ræðum húsnæðismál hér í þingsal.

Það sem mér þykir kannski helst skorta á eru ábyrgar upplýsingar um hver staðan er raunverulega á þessum markaði. Eins og kom fram í máli hv. þm. Halldóru Mogensen áðan þá virðist hver bankinn eða spáaðilinn spá fyrir um þetta í kapp við hver annan um hversu háar tölur ætti að setja fram.

Ég ætla fyrst og fremst að ræða ástandið á höfuðborgarsvæðinu verandi þingmaður höfuðborgarsvæðisins, en samkvæmt tölum frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þá meta þau það sem svo að árleg þörf sé fyrir 1.500–1.600 íbúðir inn á markaðinn. Á sjö ára tímabili eftir hrun þá komu inn um þúsund íbúðir á markaðinn. Það er því mjög eðlilegt að hér er skortur á húsnæði, það vantar upp á, í sjö ár var ekkert framleitt það sem þurfti.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu mátu það svo í upphafi þessa árs að það vantaði 1.700 íbúðir inn á markaðinn. Þá er ágætt að hafa það í huga að það eru mun fleiri íbúðir sem eru skráðar á Airbnb á höfuðborgarsvæðinu þannig að bara með því að gera einhverjar breytingar á því væri kannski hægt að bregðast við þessum skyndivanda.

Ég held reyndar að í þessum sal ættum við meira að vera að tala um langtímamarkmið okkar. Ég tek undir það að auðvitað þurfum við að hafa framtíðarstefnumótun í þessum málaflokki. Á síðustu misserum er búið að gera marga góða hluti. Ég held að hlutverk Íbúðalánasjóðs sé hvað mikilvægast þegar kemur að því og gleymum því ekki að það sem við höfum kannski fyrst og fremst áhrif á hér inni er öguð hagstjórn. Vextir og verðbólga skipta auðvitað fasteignamarkaðinn langmestu máli.

Svo get ég ekki látið hjá líða þegar við ræðum um þörfina á húsnæðismarkaðnum og uppbyggingu að segja að við verðum að horfa á samgöngur á sama tíma. Það er einfaldlega ekki hægt að fjölga á höfuðborgarsvæðinu og byggja allar þær íbúðir sem þarf (Forseti hringir.) öðruvísi en að bregðast líka við með raunhæfum lausnum í samgöngumálum.

Það er rétt sem hér hefur komið fram: Skipulagsmál, (Forseti hringir.) uppbygging íbúða og samgöngur er auðvitað einn af stærstu umhverfisþáttunum (Forseti hringir.) sem við þurfum að horfa til.