148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

5. mál
[15:27]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mjög langt en sem nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd langaði mig til að vekja athygli á nefndarálitinu þar sem áhersla er einmitt lögð á það að við tryggjum fjármagn til nýs hættumats vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða. Áminning þar að lútandi hefur einmitt verið stöðug að undanförnu vegna jarðhræringa. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að tryggja fjárframlög til að hættumatið sé í stöðugri þróun og sé virkt en um leið langaði mig að vekja athygli á því sem fram kemur í nefndarálitinu og styður við þær umræður og umfjöllun nefndarinnar um þetta mál sem snýr að lögbundnum verkefnum ofanflóðasjóðs og fjármögnun á þeim. Af því að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom einmitt inn á það atriði finnst mér vert að nefna að ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að hlýða og lesa vel umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga þegar kemur að þessum lögbundnu verkefnum ofanflóðasjóðs og leggjast öll sem eitt á þær árar að þeim séu tryggðar fjárheimildir. Við vitum, og sér í lagi landsbyggðarþingmenn, að það eru mörg brýn verkefni sem þarf að fara af stað með, en um leið þarf að tryggja að ekki sé klipið af þeim fjármunum sem til eru til að glíma við þau lögbundnu verkefni sjóðsins inn í einhver önnur verkefni sem sannarlega eru brýn og þörf, heldur að tryggja áframhaldandi fjárframlög í þau lögbundnu verkefni.