148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

ÖSE-þingið 2017.

87. mál
[13:33]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Mig langar til þess að nota tækifærið í þessari umræðu um skýrslu ÖSE-þingsins til þess að fara aðeins nánar út í það sem ég kom inn á í andsvörum við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson áðan varðandi hið svokallaða SMM-verkefni ÖSE. Nú er það þannig að þátttaka Íslands í sérstökum eftirlitsaðgerðum ÖSE, hinu svokallaða ÖSE-SMM verkefni, hefur verið engin undanfarið ár eins og kom fram í máli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar. Stefán Haukur Jóhannesson var með viðveru í Kiev á vegum verkefnisins um hríð en það hefur ekki verið neinn þar af hálfu Íslands síðan hann fór frá Kiev. Ég hafði tækifæri í ferð minni til Kiev síðastliðið haust til þess að kynnast aðeins störfum þessarar sveitar og nokkrum starfsmönnum hennar og því veit ég kannski aðeins meira af eigin raun hvernig þeirra störf virka og fyrir vikið um mikilvægi þeirra.

Þessari SMM-sveit var komið á fót 21. mars 2014 í kjölfar beiðni ríkisstjórnar Úkraínu til ÖSE um aðstoð vegna þeirra kúvendinga sem þar áttu sér stað og hún var sett af stað með samþykki allra 57 aðildarríkja ÖSE, þar með talið Íslands. Sveitin er óvopnuð borgaraleg sveit, þ.e. þetta er ekki hersveit. Hún starfar á stríðssvæðinu allan sólarhringinn og reyndar í öllum héruðum Úkraínu og helstu verkefni hennar eru að fylgjast með og greina frá átökum á hlutlausan hátt og tryggja þar með að mannréttinda sé gætt eftir fremsta megni og til að mynda skrásetja hugsanleg brot gegn Genfarsáttmálanum og annað viðlíka. Hún aðstoðar að auki við flutning á varningi, við jarðsprengjuhreinsun og þess háttar verkefni önnur, þannig að þetta skiptir gríðarlega miklu máli.

Eins og áður segir er merkilegt að Ísland sé stuðningsaðili við tilvist sveitarinnar í orði en ekki á borði, að okkar viðvera hafi verið í formi eins manns sem þó þykir öðrum hæfari að mér skilst, en hann er ekki þar lengur. Eftir því hefur verið tekið af hálfu annarra í SMM að Ísland er eitt ÖSE-ríkja sem hefur ekki verið með viðveru í Úkraínu að undanförnu. Þannig að ég kalla eftir því að þetta verði lagað.

Átökin í Úkraínu og hernám Krímskaga og Sevastópol er núna komin á fjórða ár og átökin hafa eingöngu harðnað að undanförnu. Það hlýtur því að vera nauðsynlegt að við breytum nálgun okkar í þessu máli og leggjum okkur meira fram en við höfum gert. Eins og allir vita þá er það fásinna að gera það sama viðstöðulaust og vona að maður fái einhvers konar öðruvísi niðurstöður.