148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

Samgöngustofa, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

109. mál
[15:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef smá áhuga á 4. kafla í greinargerðinni, um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Það sem mér finnst áhugavert er að í rauninni er verið að breyta fyrirkomulagi birtingar á lögum í sérlögum um Samgöngustofu. Ég velti fyrir mér hvort umræðan um almenna birtingu á lögum ætti í rauninni ekki heima með almennari hætti í lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið. Í öðru lagi er í seinni parti þess kafla, sem fjallar um öryggi kerfisins, velt upp því vandamáli með upplýsingatæknina að kerfið geti verið búið þannig að það geti geymt gögn varanlega og framvísað þeim til notenda um ótiltekna framtíð. Við könnumst náttúrlega við svona áhættu um breytingar á vefsíðum, þ.e. að þriðji aðili geti breytt innihaldi vefsíðna. Þar er væntanlega verið að vísa til þess öryggis kerfisins að það sé óbreytanlegt á þann hátt sem til er ætlast um lög. Það væri mjög óheppilegt ef hægt væri að breyta efni vefsíðnanna sem myndi teljast breyting á lögum óháð því hvort það myndi endilega kannski varða nákvæmlega Samgöngustofu og þau mál.

Ég hef eins og ég sagði áðan sérstakar áhyggjur varðandi það. Við erum að tala almennt um breytingar á því hvernig við birtum lög í lögum um Samgöngustofu en ekki á réttum vettvangi, að gera kannski birtingar í Lögbirtingablaðinu og Stjórnartíðindum einfaldari ef það er vandamálið.