smávægileg brot á sakaskrá.
Virðulegi forseti. Þetta svar er mér mikil vonbrigði. Ég var einhvern veginn barnslega kominn á þann stað að við værum öll, sem höfum eitthvað skoðað þessi mál, alveg sammála um að við ættum ekki að setja smávægileg fíkniefnabrot á sakaskrá. Mér finnst þetta vera ákveðinn viðsnúningur miðað við þá orðræðu sem ég hef heyrt alla vega úr flokki hæstv. ráðherra, kannski sér í lagi SUS. En það er svo sem vandamál hæstv. dómsmálaráðherra sjálfs.
Nú er náttúrlega munur á sakaskrá annars vegar og hins vegar þeim upplýsingum sem lögregla hefur og safnar um málsatvik og því um líkt. Ég verð hreinlega að viðurkenna, virðulegi forseti, að þetta svar kemur mér svo á óvart, að hæstv. dómsmálaráðherra vilji frekar hafa meira af upplýsingum um minni háttar afbrot á sakaskrá, að ég er ekki alveg viss um nákvæmlega hvað ég eigi að spyrja um. Ég er pínu hneykslaður, verð að segja eins og er. En ég get þá bara spurt: Hvers vegna? Hvers vegna í ósköpunum myndum við vilja hafa það þannig? Mér finnst þetta alger viðsnúningur frá allri þeirri orðræðu og umræðu sem hefur átt sér stað í vímuefnamálum núna í þó nokkur ár. Mér finnst þetta mjög leiðinlegt. Ég verð eiginlega að hvetja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra til að gera sem minnst í þessu.