148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

samræmd próf og innritun í framhaldsskóla.

328. mál
[18:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina. Eins og kunnugt er hafa samræmd könnunarpróf og framkvæmd þeirra verið talsvert mikið til umræðu undanfarna daga en verulegir annmarkar voru á framkvæmdinni, þ.e. í íslensku og enskuprófinu í 9. bekk.

Í kjölfarið setti ég af stað vinnu innan ráðuneytisins og boðaði til samráðsfundar sem haldinn var í síðustu viku með fulltrúum frá nemendum, Skólastjórafélagi Íslands, Félagi grunnskólakennara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi fræðslustjóra, samtökunum Heimili og skóla, umboðsmanni barna, Menntamálastofnun og sérfræðingahópi um framkvæmd samræmdra könnunarprófa.

Markmið fundarins var að taka ákvörðun um næstu skref er varða framkvæmd prófanna. Rætt var um hvort ógilda skyldi prófin með öllu, halda þau að nýju fyrir alla nemendur eða birta þeim nemendum sem luku prófunum niðurstöður sínar og veita öllum nemendum val um að þreyta prófin að nýju. Eins og þingheimi er kunnugt um varð síðastnefndi möguleikinn fyrir valinu og var sú ákvörðun tekin með hagsmuni nemenda að leiðarljósi.

Samráðsfundurinn var afar gagnlegur og er rétt að taka fram að ólík sjónarmið voru viðruð um mögulegar leiðir í stöðunni.

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að niðurstöður samræmdra könnunarprófa eigi að gefa nemendum vísbendingu um eigin námsstöðu í tilteknum námsgreinum og námsþáttum sem prófað er úr svo þeir geti nýtt niðurstöðurnar við að skipuleggja náms sitt frekar. Með tilliti til þess að nú fer matið eingöngu fram í 9. bekk tel ég ekki rétt að horfa til niðurstaðna námsmats rúmlega ári síðar við innritun í framhaldsskóla.

Það sjónarmið er í samræmi við niðurstöðu samráðsfundarins þar sem einróma niðurstaða varð að ekki væri ástæða til að nota niðurstöður prófanna við mat á umsóknum í framhaldsskóla. Ég tel fulla sátt um þetta atriði í grunnskólasamfélaginu og einnig meðal framhaldsskóla.

Þetta leiðir mig að seinni spurningu hv. þingmanns um hvort ráðherra hyggist fella úr gildi ákvæði í reglugerð nr. 1199/2006, um breytingu á reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla, nr. 1150/2008, sem heimilar framhaldsskólum að nota niðurstöður samræmdra prófa sem viðbótargögn við innritun nemanda. Svar mitt við þeirri spurningu er já. Vinna við reglugerðarbreytingu er þegar hafin og er á lokametrum í samræmi við framangreinda niðurstöðu sem varð á samráðsfundinum, að niðurstöður samræmdra könnunarprófa í 9. bekk verði ekki nýttar við mat á umsóknum í framhaldsskóla.

Að auki vil ég bæta við að ég tel eðlilegt að í ljósi atburðarásarinnar og umræðunnar í kringum samræmdu könnunarprófin að staldra við og spyrja hvað megi betur fara og hvað þurfi að laga í stóra samhenginu. Það er t.d. ljóst að skiptar skoðanir eru um samræmd könnunarpróf, markmið þeirra og tilgang.

Virðulegi forseti. Það er því sjálfsagt að ræða um hugmyndafræðina sem liggur að baki lagaskyldunni um samræmd próf þótt hún tengist ekki framkvæmd prófanna nú. Á fyrrnefndum samráðsfundi var einmitt ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp hagsmunaaðila sem gera á tillögu að framtíðarstefnu um fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Sú vinna var sett strax af stað í ráðuneytinu og get ég upplýst þingheim um að tilnefningarbréfin fyrir hópinn voru send út í dag.

Við eigum á hverjum tíma að rýna grunnskólalögin og raunar skólakerfið allt og velta fyrir okkur hvernig við búum nemendur best undir framtíðina. Samfélagið er að breytast. Það er fullkomlega eðlilegt að skólakerfið breytist samhliða því. Það er von mín að aðkoma allra ofangreindra aðila verði til þess að fundin verði farsæl lausn sem gera mun menntakerfið betra til framtíðar.

Ég hlakka til að hlýða á hv. þingmenn ræða þessi mál hér í dag og vil líka taka fram að það er ríkur vilji í samfélagi okkar til að bæta menntakerfið. Það er löng hefði fyrir því að leggja áherslu á gildi læsis og menntunar á Íslandi. Tækifærið til að efla umgjörð menntakerfisins er núna. Nýtum það til framtíðar og höfum að leiðarljósi að menntun er fyrir alla.