148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um sjúkratryggingar. Frumvarpinu er ætlað að jafna aðgang þeirra sem þurfa á dvöl í dvalarrými eða dagdvöl að halda þannig að allir þeir sem þurfa slíka þjónustu geti notið hennar óháð aldri.

Samkvæmt gildandi ákvæðum eru úrræðin dagdvöl og dvalarrými einungis ætluð öldruðum. Með frumvarpinu er ætlunin að það sama gildi um dvöl í dvalarrými og í dagdvöl, þ.e. að dvöl grundvallist á faglegu heilsufarsmati, óháð aldri. Um langa hríð hafa komið upp tilvik þar sem óskað hefur verið eftir undanþágum til dvalar í dvalarrýmum og í dagdvöl þrátt fyrir að viðkomandi sé yngri en 67 ára. Lagastoð fyrir slíkum undanþágum hefur vantað.

Með þeirri breytingu á löggjöfinni sem lögð er til verður heimilt að veita undanþágu frá aldursskilyrði varðandi dvalarrými og dagdvöl, en í frumvarpinu er lagt til að 24. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, verði breytt þannig að skýrt verði að sjúkratrygging nái til þjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvöl sem samið hefur verið um samkvæmt IV. kafla laganna. Breytingin er til þess fallin að skjóta lagastoð undir núverandi framkvæmd varðandi dvalarrými og dagdvöl.

Í frumvarpinu er einnig að finna reglugerðarheimild sem ætlunin er að setja í lög um málefni aldraðra til handa ráðherra til að kveða nánar á um fyrirkomulag faglegs teymis og skilyrði mats á þörf fyrir dvöl í dagdvöl.

Þá er gert ráð fyrir breytingu á lögum um málefni aldraðra þannig að í stað þess að hámark kostnaðarþátttöku fyrir dagdvöl einstaklings miðist við óskertan grunnlífeyri einstaklings verði miðað við 18% af fullum ellilífeyri samkvæmt 23. gr. laga um almannatryggingar.

Svokallaður grunnlífeyrir ellilífeyrisþega var afnuminn frá 1. janúar 2017 með lögum nr. 116/2016, um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, þegar bótaflokkar ellilífeyrisþega voru sameinaðir. Fjárhæð hins nýja ellilífeyris er mun hærri en fjárhæð eldri grunnlífeyris og því þykir nauðsynlegt að breyta ákvæðinu þannig að miðað verði við ákveðið hlutfall af fullri fjárhæð hins nýja ellilífeyris sem samsvarar fyrri fjárhæð grunnlífeyris ellilífeyrisþega að teknu tilliti til þeirra hækkana sem orðið hafa á bótum almannatrygginga.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og leyfi mér því að leggja til að því verði vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.