148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dómstólar o.fl.

442. mál
[18:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt hægt að gera athugasemdir við hérna. Ég ætla að byrja á hringavitleysunni í þessu. Nú er það svo í frumvarpinu að það er passað upp á að dómari sé ekki úr því dómstigi sem málið endaði á. En getur þetta ekki farið hina leiðina, þegar endurupptökudómur hefur kveðið á um að taka megi upp mál að nýju sé viðkomandi dómari sem var í endurupptökudómstólnum dómari í málinu þegar það er tekið upp á nýtt?

Einnig vil ég ítreka athugasemdir mínar um að lögin séu í fullu samhengi og með fullum texta. Það gagnast þingmönnum lítið fyrir 1. umr. ef nefndin fær bara skjalið. Þetta ætti að vera hluti af öllu ferlinu.

Að lokum vildi ég bera það alla vega af mér það sem dómsmálaráðherra bryddaði upp á varðandi kynjasjónarmiðin í Landsréttarmálinu. Það var ekki endilega það sem var verið að setja út á heldur skortur á rökstuðningi fyrir því að breytingar voru gerðar. Kynjasjónarmið voru ekki vandamál þar. Þau voru ekki einu sinni notuð sem rök dómsmálaráðherra eftir því sem ég best man.