148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður að heyra að hv. þingmaður er ánægður með frumvarpið enda þekkir hann þessi mál mjög vel af sínum fyrri störfum. Ég held að við séum alveg sammála, ég og hv. þingmaður, hvað það varðar að þeir aðilar sem að málinu koma þurfi að vinna saman. Ég held að grunnurinn að þeirri samvinnu byggist á trausti. Mín upplifun hefur alla vega verið sú. Hv. þingmaður notaði mjög hreina íslensku um það hvað stundum gerist þegar menn eru að vinna hver í sínu horni og eru ekki tilbúnir til að leggja saman með öðrum vegna þess að þeir hafa áhyggjur af því að málaflokkur þeirra eða það sem þeir brenna fyrir verði einhvern veginn útundan.

Nú höfum við náð saman með þessum hætti. Ef gengur eins og lagt er upp með munu þær áhyggjur vonandi heyra sögunni til hjá viðkomandi aðilum. Við höfum öll sameiginlegra hagsmuna að gæta, alveg sama hvar menn standa þegar kemur að útflutningi Íslendinga.