148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[16:58]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þetta er ekki athugasemd um fundarstjórn forseta per se heldur meira um það ferlamisbeitingarofbeldi sem átt hefur sér stað í fastanefndum þingsins og er þess eðlis að forseta þarf að vera kunnugt um að sé í gangi og þarf að bregðast við því á viðeigandi hátt. Í vor hefur verið alveg afskaplega góður vinnuandi, góður vinnufriður og margt áunnist í nefndum þangað til núna. Það er fullt af fínum málum sem fengið hafa ágætismeðferð, reyndar fjölgar þeim málum stjórnarinnar sem fengið hafa mjög lélega meðferð. Samt stendur til að að reyna einhvern veginn að moka út málum á síðustu stundu. Nefni ég sem dæmi frumvarp um Íslandsstofu sem er svo illa unnið að um það mætti skrifa stutta bók.

En þessi nýju vinnubrögð hafa skilað okkur því að núna hafa komið og verið samþykkt á Alþingi sjö mál úr atvinnuveganefnd, (Forseti hringir.) 11 mál úr utanríkismálanefnd og 10 mál úr efnahags- og viðskiptanefnd, sem dæmi. Á sama tíma liggja þrjú mál frá þingmönnum (Forseti hringir.) inni í atvinnuveganefnd sem ekki hafa fengið afgreiðslu þrátt fyrir að vera tilbúin, tvö í utanríkismálanefnd og (Forseti hringir.) 11 í efnahags- og viðskiptanefnd, (Forseti hringir.) bara til þess að taka dæmi.