148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:21]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar sektirnar, svo að ég nefni það, þá náði ég ekki að svara hv. þm. Þorsteini Víglundssyni sem spurði svipaðrar spurningar og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Ég vek athygli á því eða árétta að reglugerðin er afdráttarlaus um fjárhæð stjórnvaldssekta. Við erum bundin við að innleiða þessar fjárhæðir. Þetta eru auðvitað gríðarlegar fjárhæðir, gríðarlegar sektir, sem geta fallið á aðila sem verða uppvísir að brotum á persónuverndarreglugerðinni. Málið er að sjálfsögðu brýnt en við eigum eftir að sjá hvernig þetta þróast.

Hins vegar er líka kveðið á um dagsektir í frumvarpinu. Persónuverndarreglugerðin kveður ekkert á um dagsektir en hún heimilar ríkjum að hafa ákvæði um dagsektir. Ákvæði um dagsektir hafa verið í íslenskri löggjöf um persónuvernd í 18 ár. Hér er ekki um að ræða neina breytingu hvað það varðar. Hins vegar held ég að ég fari rétt með ef ég segi — ég fullyrði þetta með fyrirvara, ég hef ekki skoðað það algerlega í þaula — að dagsektum hafi aldrei verið beitt í persónuverndarmálum hér á landi. En ákvæðið hafa menn hér á landið talið helst til þess fallið að halda mönnum við efnið í þessu.

Á bls. 49 í frumvarpinu koma fram heilmargar athugasemdir, meðal annars frá Samtökum atvinnulífsins eins og ég hef nefnt. Þar er gerð grein fyrir því hvernig við höfum tekið á því. Ég nefni sérstaklega atriði sem mér finnst sjálfri mjög áhugavert og það er persónuvernd látinna manna. Ég féllst á það að breyta því í frumvarpinu, sem hafði verið kynnt í drögum, að persónuvernd látinna manna næði til tíu ára. (Forseti hringir.) Það var fært niður til fimm ára eins og það er í því frumvarpi sem hér er lagt fram.