148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[10:57]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langaði til að taka undir orð hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar varðandi þingmál Flokks fólksins sem snýr að því að afnema skerðingar á atvinnutekjum ellilífeyrisþega. Þetta var mál sem átti í raun að afgreiða þannig á nefndarfundi velferðarnefndar í gær að það ætti að vísa því beint til ráðherra. Þegar í ljós kom að ekki var hægt að gera það án þess að afgreiða málið út úr nefndinni og vísa því svo til ráðherra var ákveðið að vísa því til ráðherra með einhvers konar bókun, vegna þess að það mátti alls ekki afgreiða það út úr nefndinni því að þá færi það í umræðu. Það taldist vera óskilvirkt að setja það í umræðu í þingsal, taka umræðu um mál sem ætti svo ekki að afgreiða heldur færi beint til ráðherra. Þangað á þetta mál að fara og vera tekið í einhverja vinnu sem er mögulega í gangi í ráðuneytinu um að skoða það að minnka skerðingar. Í staðinn fyrir að leyfa þessu máli að koma hingað í almenna umræðu (Forseti hringir.) átti að stinga þessu máli undan, fela það með einhverri bókun í velferðarnefnd um að það færi til ráðherra (Forseti hringir.) og hann ætti að taka (Forseti hringir.) það til greina þegar hann færi í endurskoðun á þessum málaflokki. (Forseti hringir.) Þetta er óþolandi, gersamlega óþolandi.