148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:06]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er alveg rétt að forseti Alþingis hefur dagskrárvaldið. En forseti Alþingis er forseti Alþingis, hann er ekki forseti ríkisstjórnarinnar eða forseti meiri hluta atvinnuveganefndar. Þess vegna hljótum við að óska eftir því að þegar gerðir eru samningar milli forseta og þingflokksformanna sé staðið við þá samninga. Annars fer allt í algjöra upplausn hér innan húss.

Nú er það svo að þetta ágæta mál, þetta veiðileyfagjaldamál, þar sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að fella niður 3 milljarða, afhenda útgerðinni 3 milljarða á silfurfati, fer til umsagnar í dag. Umsagnarbeiðnir voru sendar út í dag. Og hvað hafa umsagnaraðilar langan tíma? Jú, þeim ber að skila umsögnum á morgun. Þeir hafa einn dag, herra forseti, til að klára verkið.

Er eigandinn, íslenska þjóðin, spurð? Nei, hún er bara ekkert (Forseti hringir.) spurð. Það eru eingöngu aðilar úr útgerðinni sem eiga að skila inn umsögnum. Ég vil, úr þessum ræðustól, skora á eiganda þessarar auðlindar að senda inn umsagnir. Fólk hefur líklega 12 eða (Forseti hringir.) 24 tíma til þess. Ég skora á þjóðina að senda inn umsagnir.