148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

dagskrá fundarins.

[11:18]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Hér áðan kom hv. þm. Birgir Ármannsson, útskýrari ríkisstjórnarinnar, og fullyrti að við legðumst þver gegn því að málið komist á dagskrá. Þetta er rangt. Við leggjumst ekkert gegn því að þingmál fái eðlilega afgreiðslu á þinginu, en við leggjumst gegn því að málið sé tekið fram fyrir önnur mál, þvert á hefðir, í bullandi ósætti. Við leggjumst gegn því að mál fái slíka forgangsmeðferð að ætla mætti að ekkert skipti meira máli en þau og þá sérstaklega að hygla stórum útgerðum. Við leggjumst gegn því að almenningur fái samtals einn og hálfan sólarhring til þess að veita umsögn um svo mikilvægt mál, þvert á góð vinnubrögð, og eingöngu vegna tuddaskapar hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur sem tuddaði þessu máli í ósætti í gegnum nefndina. Við leggjumst gegn því að samningar verði brotnir við minni hlutann. Þetta eru ekki ásættanleg vinnubrögð. Auðvitað leggjumst við gegn því að það séu notaðar svona söguskýringar til þess að segja að við séum einhvern veginn að tefja málin (Forseti hringir.) og reyna að stoppa þau.