148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

endurskoðun skaðabótalaga.

[12:03]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Menn kunna auðvitað að hafa ýmsar skoðanir á því hvernig tryggingafélög eru rekin. En tryggingafélög eru bundin við mjög skýrar og strangar reglur um rekstrarfé og annað, m.a. þessa bótasjóði sem eru lögbundnir. Ég tel víst að þessar reglur um rekstur tryggingafélaga hér á landi séu svipaðar þeim sem eru í öðrum löndum, að minnsta kosti á hinu Evrópska efnahagssvæði, þannig að allt eru þetta samræmdar reglur. Ekki myndum við vilja vera án bótasjóðanna vegna þess að þeim er auðvitað ætlað að standa undir háum kröfum um bætur hjá tryggingafélögunum.

Allt þetta þarf að ræða auðvitað við endurskoðun skaðabótalaganna. Ég legg auðvitað áherslu á það að sjónarmið margra komi þar fram. Hópur sem þar verður skipaður til þess að fara yfir þessi lög verður skipaður ekki bara af hálfu tryggingafélaganna, heldur allra þeirra sem hagsmuni hafa af þessari löggjöf, sem eru að sjálfsögðu við öll.