148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[12:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni fyrir að óska eftir sérstakri umræðu um biðlista á sjúkrahúsið Vog, en Vogur er ein umsvifamesta meðferðarstofnun landsins við áfengis- og vímuefnafíkn. Líkt og fram kom í svari mínu við þingfyrirspurn frá febrúar sl. hefur biðlisti eftir innlögn á Vog lengst á undanförnum árum en hv. málshefjandi spyr sérstaklega um nokkra þætti er tengjast biðlista á Vog.

Í fyrsta lagi spyr þingmaðurinn hvernig ráðherra hyggist bregðast við þeim vanda sem langir biðlistar eru svo tryggt sé að þeir sem eftir hjálpinni kalla fái aðstoð.

Stærstur hluti þeirra sem eru á biðlista á Vogi hringja sjálfir og óska eftir innlögn. Til viðbótar koma formlegar beiðnir frá fagaðilum, t.d. Landspítala og barnaverndarnefndum. Biðlistinn á Vog er því öðruvísi byggður upp en biðlistar almennt í heilbrigðisþjónustunni þar sem einungis fagaðilar skrá einstaklinga á biðlista. Biðtími á biðlista inn á sjúkrahúsið Vog er mislangur eftir eðli vandans og hefur sjúkrahúsið Vogur lagt áherslu á það að flokka þá sem bíða eftir því hver þörfin er. Er þar lagt mat á heilsufarslega og félagslega þætti til þess að skapa ákveðinn forgang.

Þeir sem eru í brýnustu þörf eru lagðir inn eftir 7–14 daga, þ.e. ungmenni undir 20 ára, þungaðar konur og einstaklingar sem búa við slæmar félagslegar aðstæður. Af þessu er ljóst að aðeins hluti þeirra sem bíður eftir meðferð á Vogi þarf að bíða lengur en 7–14 daga. Sumir þeirra sem glíma við áfengis- og/eða fíkniefnavanda eiga auðvitað einnig við mikinn félagslegan vanda að etja og því er mikilvægt að samtvinna félagsleg úrræði og heilbrigðisúrræði til að stuðla að sem bestum árangri í bata. Til að mæta þessum vaxandi vanda hef ég ákveðið að hraða vinnu við heildarstefnumótun fyrir meðferð við áfengis- og vímuefnavanda og sú vinna er í undirbúningi í ráðuneytinu.

Það er rétt að taka fram að Landspítalinn sinnir einnig meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn. Nú er mikilvægt að biðlistar fyrir meðferð á Vogi séu skoðaðir í samhengi við það. Landspítalinn tekur til meðferðar þá sem eru veikastir, hafa erfið fráhvarfseinkenni og bráð geðvandamál. Á síðustu einum til tveimur árum hefur orðið mikil aukning í alvarlegum tilfellum fíknivandamála og sú aukning hefur m.a. haft þau áhrif að biðlistar hafa lengst og eftirspurnin jafnframt aukist á Landspítalanum.

Hv. þingmaður spyr í öðru lagi hvernig ráðherra sjái fyrir sér að auka forvarnir á vegum SÁÁ.

Hvað lýtur beint að SÁÁ hefur heilbrigðisráðuneytið gert samning við SÁÁ um meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn en það er enginn samningur í gildi við SÁÁ um forvarnir á þessu sviði. Ég treysti yfirstjórn og starfsfólki SÁÁ til að meta og skipuleggja hvort og þá hvernig samtökin sinna sérstaklega forvarnastarfi en sjálf hef ég lagt áherslu á styrkingu skaðaminnkandi úrræða samhliða forvörnum í víðum skilningi.

Hv. þingmaður talar í þriðja lagi um áfengis- og vímuefnameðferð ungs fólk sem hefur sannarlega verið í uppnámi og spyr hvernig ég hyggist bregðast við því.

Velferðarráðuneytið hefur boðað til vinnustofu 5. júní nk. þar sem fjallað verður um málefni barna og ungmenna sem glíma við neysluvanda, þá sérstaklega skipulag áfengis- og vímuefnameðferðar fyrir þennan hóp. Til vinnustofunnar er boðið fulltrúum þeirra sem koma að málefnum þessa hóps, t.d. fulltrúum Landspítala, Barnaverndarstofu, umboðsmanns barna, Olnbogabarna, SÁÁ og embættis landlæknis. Ég bind vonir við að niðurstöður vinnustofunnar verði eitt skref í áttina að því að leysa þá stöðu sem upp er komin.

Í þessari viku hitti ég fulltrúa SÁÁ og embættis landlæknis til að ræða stöðuna sem upp er komin þegar ljóst var að SÁÁ hygðist hætta við að taka við ólögráða einstaklingum til meðferðar. Sá fundur var góður og hefur SÁÁ lýst því yfir að Vogur muni áfram sinna þessum hópi þar til annað úrræði er í augsýn. Ég treysti þeim mjög vel til þess að gera það, óháð því hvort SÁÁ komi að þeirri varanlegu lausn eður ei.

Síðasta spurning málshefjanda lýtur að áfangaheimilum á vegum SÁÁ og fleiri aðila sem líða mikinn fjárskort.

Samfara auknu fjármagni af fjárlögum til heilbrigðismála síðustu ár hafa greiðslur úr ríkissjóði til SÁÁ aukist á síðustu árum til að mæta aukinni þörf en áfangaheimili eru búsetuúrræði sem heyra ekki undir mitt ráðuneyti, þ.e. ekki undir heilbrigðisráðherra, heldur eru það sveitarfélögin sem annast þau málefni. En mér er vel kunnugt mikilvægi þessara úrræða og hef styrkt skaðaminnkandi úrræði af öllum toga, svo sem verkefnið Frú Ragnheiði. Einnig er í undirbúningi, og rétt að nefna það hér, opnun neyslurýma í samvinnu við Reykjavíkurborg og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir langt leidda vímuefnaneytendur.

Ég vona, virðulegi forseti, að ég geti komið að frekari svörum í síðari ræðu.