148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:16]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Í anda þeirrar ágætu umræðu sem við áttum hér um Vog langar mig að tala aðeins um ábyrgð. Hér tekur hver og einn ábyrgð á því sem hann segir, hvað hann segir í pontu og hversu oft hann kemur í pontu. Að stjórnarandstaðan sé núna að kenna hæstv. forseta um hversu oft stjórnarandstaðan komi upp í pontu er í hæsta lagi hlægilegt. Ég væri til í að nota meiri og sterkari orð um það, ég kýs að gera það ekki. (JÞÓ: Þú veist betur sjálfur.) Þú kannski leyfir mér, hv. þingmaður, að klára mál mitt áður en þú heldur áfram, nóg hefur þú talað í dag.

Stjórnarandstaðan talar hér um að forseti hafi vitað allan tímann hvernig þessi atkvæðagreiðsla færi. Vissi hv. stjórnarandstaða það þá ekki líka? Gat hv. stjórnarandstaða ekki einfaldlega tekið þá ákvörðun vegna hinna fjölmörgu mála sem hv. stjórnarandstæðingar tala um að nauðsynlegt sé að komast á dagskrá, að hleypa málinu einfaldlega í atkvæðagreiðslu … (Gripið fram í.) — Ég endurtek bón mína, hv. þm. Jón Þór Ólafsson, (Forseti hringir.) að ég fái kannski bara næði. Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem hingað í dag.

Gat hv. stjórnarandstaða ekki bara gert það sama? Hleypt þessu máli (Forseti hringir.) í atkvæðagreiðslu, fellt það (Forseti hringir.) og náð því fram sem hún vildi, þ.e. að taka málið af dagskrá, og tekið til (Forseti hringir.) við öll þau góðu mál sem (Forseti hringir.) hv. stjórnarandstæðingar (Forseti hringir.) láta hér eins og þeim sé í mun um að komast í dagskrá í leikriti dagsins?